Birting Morgunblaðsins á afriti af símtali milli Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem þeir ræða um neyðarlánsveitingu til Kaupþings þann 6. október 2008, hefur ekki verið kærð til héraðssaksóknara eða Fjármálaeftirlitsins af Seðlabanka Íslands. Engin rannsókn hefur farið fram á því hvort að Davíð Oddsson, sem nú er ritstjóri Morgunblaðsins, hafi tekið mér sér trúnaðargögn úr Seðlabankanum þegar hann lét af störfum þar, en bankinn hefur árum saman neitað að afhenda fjölmiðlum afrit af umræddu símtali á grundvelli þagnarskylduákvæðis laga um starfsemi hans.
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans um málið segir að birting afritsins af símtalinu verði tekin til skoðunar eftir helgi og að ekki yrði hægt að svara því til hvaða aðgerða bankinn ætlar að grípa vegna hennar fyrr en niðurstaða þeirrar skoðunar liggi fyrir.
Morgunblaðið birti á laugardag afrit af umræddu símtali. Í símtalinu ræða þeir neyðarlánalánveitingu til Kaupþings upp á 500 milljónir evra, sem kostaði íslenska skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna í tap.
Kjarninn miðlar, móðurfélag Kjarnans, stefndi í síðasta mánuði Seðlabanka Íslands og fór fram á að ógilt yrði með dómi sú ákvörðun bankans að hafna kröfu Kjarnans um aðgang að hljóðritun og afritum af símtalinu. Í ljósi þess að Morgunblaðið hefur birt afrit af símtalinu var krafa um að fá upptöku af símtalinu og afrit af því afhent endurtekin. Ekki hefur borist efnislegt svar við þeirri kröfu.