Fasteignafélagið Reginn hf. hefur skrifað undir samning um einkaviðræður og helstu skilmála um fyrirhuguð kaup á öllu hlutafé dótturfélaga Fast-1 slhf., HTO ehf. og Fast-2 ehf.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reginn til kauphallar Íslands.
Stærstu eignir félaganna eru Katrínartún 2 (turninn Höfðatorgi) og Borgartún 8-16. Aðrar eignir eru Skúlagata 21, Vegmúli 3 og Skútuvogur 1. Samtals telur fasteignasafnið 44 þúsund fermetra ásamt bílakjallara með yfir 600 bílastæðum, að því er segir í tilkynningunni.
Eignirnar eru í 98% útleigu til traustra leigutaka. Meðal stærstu leigutaka eru Reykjavíkurborg, Fjársýsla Ríkisins, Reiknistofa Bankanna og Fjármálaeftirlitið.
Með viðskiptunum verður eignasafn Regins hf. 366 þúsund fermetrar og falla fyrirhuguð kaup vel að fjárfestingastefnu félagsins sem felur m.a í sér að auka hlut félagsins í hágæða atvinnuhúsnæði á sterkum markaðssvæðum. „Með undirritun samningsins hefja aðilar einkaviðræður um kaupin með það að markmiði að komast að samkomulagi um efni endanlegs kaupsamnings. Viðræður milli aðila munu byggja á forsendum og skilmálum samningsins að teknu tilliti til niðurstöðu áreiðanleikakannana,“ segir í tilkynningunni.
Fyrirhuguð kaup miðast við að heildarvirði (e. EV) HTO og Fast-2 sé metið á 23,2 milljarða króna. Endanlegt kaupverð hlutafjár mun ráðast af skuldastöðu félaganna við afhendingu. Gangi viðskiptin eftir mun Reginn gefa út nýtt hlutafé upp að 5,8 milljörðum króna að markaðsvirði á meðalgengi hlutabréfa Regins undangengis mánaðar fyrir undirritun kaupsamnings auk þess sem viðskiptin verða fjármögnuð með útgáfu á nýjum skuldabréfaflokki undir útgáfuramma Regins. Takmörkun verður á viðskiptum með 2/3 af hlutum sem gefnir verða út vegna viðskiptanna, í annars vegar 2 mánuði og hins vegar 4 mánuði.
„Viðskiptin eru m.a. háð skilyrðum um að samkomulag náist um endanlegan kaupsamning, niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár, samþykki stjórnar fyrir útgáfu skuldabréfaflokks og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki á 2. ársfjórðungi 2018. Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins hækki um 1.240 milljónir króna á ársgrundvelli og eignasafn stækki um 14% miðað við fermetra. ,,Yield“ kaupanna er um 5,3%,“ segir í tilkynningunni.
Nýr eignarhlutur í Regin, ef af verður, yrði tæp 13 prósent sem afhendist seljanda, Fast-1 slhf. Á meðal stærstu hluthafa Fast-1 eru Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með tæplega 20% hlut hver, Festa lífeyrissjóður með tæplega 10% hlut og Almenni lífeyrissjóðurinn með tæplega 7% hlut.