Hamfararannsóknir í félagsráðgjöf sýna að þegar áföll ríða yfir þá komi þeir verst út sem illa standa að vígi fyrir. Þetta á bæði við þegar áfallið ríður yfir og eftir það.
Þetta segir Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, en hún vann að verkefni á vegum Norrænu velferðarvaktarinnar sem birti skýrslu um lokaniðurstöður sínar í gær.
Hún segir jafnframt að þess vegna sé félagsþjónustan svo mikilvæg því þar liggi þekkingin. Með því að hafa öfluga félagsþjónustu sé verið að þjóna þeim sem hafa mikla þörf.
Getum lært af öðrum
Félagsþjónustan á Íslandi getur lært af hinum Norðurlöndunum og ekki síður af öðrum löndum, eins og Indlandi og Kína, þegar kemur að huga að uppbyggingu eftir hamfarir eða erfið stór áföll.
Guðný Björk segir enn fremur að skýrari löggjöf þurfi varðandi almannavarnir og félagsþjónustu. Ábyrgðarhlutverk verði að vera skýr og æskilegt væri ef almannavarnaræfingar næðu einnig til félagsþjónustu.
Heimaþjónusta skiptir máli í þessu sambandi, að hennar sögn, en sveitarfélögin sjá um hana. Þess vegna verði að vera gott samstarf á milli almannavarna og sveitarfélaganna. Nauðsynlegt sé að umræðunni sé haldið áfram milli þessara aðila en hún bætir því við að hópurinn sem stóð að verkefninu sé byrjaður að undirbúa vinnuþing með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og almannavörnum. Það muni vera haldið snemma á næsta ári.
Guðný Björk segir að mikilvægt sé að hver og ein stofnum þurfi að vera með skýrt hlutverk og gott skipulag. Það hafi komið vel í ljós þegar hópurinn fór að greina ástandið. Of fáir hafi verið að sinna því sem þarf að sinna.
Ætla að byggja upp góða þekkingu
Hún bendir á að Finnar framkvæmi flottar almannavarnaræfingar sem ná yfir fleiri þætti en einungis fyrstu viðbrögð. Allar stofnanir ættu að vera með áætlun, sem og sveitarfélög. Og þrátt fyrir að sum þeirra séu búin að gera slíkar áætlanir þá sé ýmislegt sem þurfi að efla.
Hópurinn sem stóð að verkefninu mun halda áfram að skoða sérstök sveitarfélög. „Við ætlum að styrkja vefinn og þræða þetta áfram. Við ætlum að byggja upp góða þekkingu á þessu sviði,“ segir Guðný Björk og bætir við að þrátt fyrir að mikil reynsla, þekking og góðar æfingar séu stundaðar og mikið sé unnið með íbúum þá sé hreinlega ekki hægt að búa sig undir allt.
Í verkefninu var metið hvernig og hvort norræn velferðarkerfi séu undirbúin undir hvers konar vá með sérstaka áherslu á hlutverk félagsþjónustu. Dreginn hafi verið lærdómur af starfi Velferðarvaktarinnar sem var stofnsett hér á landi í kjölfar efnahagskreppunnar, viðbragðskerfi annarra Norðurlanda kortlögð og skoðað hvernig norræn velferðarkerfi þurfa að búa sig undir áskoranir komandi ára.
Sérstök áhersla hafi verið lögð á hlutverk félagsþjónustu og hvernig hún geti aukið viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga.
Kjarninn fjallaði um skýrsluna í gær en í aðalniðurstöðum segir að Finnland, Noregur og Svíþjóð leggi sérstaka áherslu á félagsþjónustu í regluverki þeirra þegar erfiðir tímar steðja að. Í skýrslunni er bent á að í Svíþjóð séu regluverkin fólgin í lögunum sjálfum sama hverjar aðstæður eru, en sérstök lög séu í hinum löndunum tveimur þegar um óvissuástand er að ræða.
Öll Norðurlöndin ætlast til þess að yfirvöld búi til áætlun fyrir óvissutíma, þrátt fyrir að á Íslandi og í Danmörku sé ekki fjallað sérstaklega um hlutverk félagsþjónustu þegar vá stendur yfir. Hins vegar beri henni að gera áætlun ef eitthvað kemur upp á.