Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í annað sinn í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum. Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins. Efnistök eru því afar fjölbreytt. Í Mannlífi er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Á meðal efnistaka í blaði dagsins er ítarlegt viðtal við Gunnar Nelson, fréttaskýring þar sem fram kemur að fjórir af hverjum tíu nýjum útlendingum sem hafa flust til Íslands það sem af er árinu 2017 setjast að í Reykjavík, úttekt á falsfréttum og áhrifum þeirra og umfjöllun um Borgarlínu, sem nú er komin á fjárhagsáætlun. Þá skrifar Björg Magnúsdóttir grein þar sem hún veltir fyrir sér hvaða möguleika fólk utan EES hefur á að setjast að á Íslandi til frambúðar og hvort að innbyggður rasismi sé í íslenska útlendingakerfinu. Og margt, margt fleira.
Hægt er að lesa blaðið á rafrænu formi.