Kostnaður Arion banka vegna reksturs United Silicon hefur að jafnaði numið í kringum 200 milljónum króna í hverjum mánuði frá því að kísilverksmiðjan fékk heimild til greiðslustöðvunar í ágúst mánuði.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Það er Arion banki, stærsti hluthafi félagsins, sem ábyrgist rekstur kísilverksmiðjunnar á greiðslustöðvunartímanum og stendur því undir öllum kostnaði. Greiðslustöðvunartíminn rennur út í desember og kemur til greina að fyrirtækið fari einfaldlega í þrot, sökum þess að tímafrekt og dýrt getur reynst að koma verksmiðjunni í gang.
Samkvæmt því sem fram kemur í Markaðnum þá munar mestu um greiðslur vegna launa- og raforkukostnaðar en einnig hefur bankinn þurft að leggja til umtalsverða fjármuni vegna greiningarvinnu og tæknilegrar úttektar í tengslum við fjárhagslega óreiðu og rekstrarerfiðleika fyrirtækisins.
Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi United Silicon, hefur verið kærður vegna meintra brota í starfsemi félagsins, en hann hefur sjálfur neitað því staðfastlega að hafa brotið af sér. Héraðssaksóknari er nú með málin til rannsóknar.
Fram kom í tilkynningu Arion banka vegna uppgjörs bankans fyrir þriðja ársfjórðung að bankinn hefði þegar afskrifað 4,7 milljarða króna á þessu ári vegna verkefnisins. Í tilkynningunni segir að skuldbinding Arion banka í dag sé um 5,4 milljarðar króna.