Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi formaður flokksins, segir að kjósendur hafi valið þá sem þurfi að starfa saman á Alþingi. Raunverulegum tækifærum sem skapist til að bæta samfélagið og gera mannlífið betra eigi ekki að kasta frá sér að óathuguðu máli. Slík tækifæri til að hafa áhrif vaxi ekki á trjánum. Þetta segir Steingrímur í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Flokkur hans, Vinstri græn, eru sem stendur í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Töluverð ólga hefur verið innan flokksins vegna þessa og yfir 100 manns hafa sagt sig úr honum. Þá hefur ungliðahreyfing Vinstri grænna lýst sig andsnúna viðræðunum og tveir af ellefu þingmönnum flokksins kusu gegn því að hefja þær. Í nýlegri skoðanakönnun MMR kom í ljós að 57 prósent kjósenda Vinstri grænna vildu síst sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn af öllum þeim flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Í grein sinni í dag veltir Steingrímur, sem var aðalhvatamaðurinn af stofnun Vinstri grænna og var formaður flokksins árum saman, því fyrir sér hvers vegna fólk taki þátt í stjórnmálum. Hann telur að flestir geri það til að láta gott af sér leiða. „Óháð því hver meginhvatinn var fyrir stjórnmálaþátttöku hvers og eins í byrjun er gefið að það munu skiptast á skin og skúrir, sigrar og ósigrar. Menn ná árangri og gleðjast á einum tíma en sjá lítinn árangur erfiðis síns og verða fyrir vonbrigðum á öðrum tímum. Þetta skyldu allir hafa hugfast sem hyggja á þátttöku í stjórnmálum. Um leið er óhemju mikilvægt að þessi veruleiki fæli ekki gott fólk frá þátttöku. Þetta er rétt eins og að taka þátt í, einfaldlega að lifa, lífinu sjálfu.“
Steingrímur veltir því síðan fyrir sér í þágu hverra eigi að hafa áhrif og hvernig. „ Við veljum hið einfalda og augljósa svar við fyrri hluta spurningarinnar, í þágu samfélagsins. Svarið við seinni hlutanum er flóknara, því vissulega geta menn haft áhrif á marga vegu. Með málflutningi, með því að koma málum á dagskrá, með gagnrýni á það sem miður fer og svo síðast en ekki síst með því að framkvæma hlutina. Það getur kostað samninga við aðra og málamiðlanir eins og kunnara er en frá þurfi að segja þessa dagana. Og, menn velja sér ekki sjálfir þá sem þeir þurfa að starfa með á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Það gerðu kjósendur.
Hangir svo ekki svarið við seinni hluta spurningarinnar, þ.e. hvernig hafa menn áhrif, saman við svarið við fyrri hlutanum, sem sagt áhrif í þágu hverra. Við erum að þessu í þágu samfélagsins. Það er hið dags daglega líf og amstur fólksins í landinu sem þetta snýst um. Stjórnmálin lifa ekki sjálfum sér. Stjórnmálaflokkar eru tæki en ekki sjálfstætt tilverumarkmið. Raunverulegum tækifærum sem skapast til að bæta samfélagið og gera mannlífið betra á ekki að kasta frá sér að óathuguðu máli. Þau vaxa ekki á trjánum.“