Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið að hækka að undanförnu. Tunnan af hráolíu á markaði í Bandaríkjunum kostaði 59 Bandaríkjadali í lok dags í gær, og hefur verðið hækkað um nærri tuttugu prósent á um tveimur mánuðum. Það hefur ekki verið hærra í tvö ár.
Í byrjun september var verðið rúmlega 47 Bandaríkjadalir.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal er helsta ástæðan fyrir hækkun olíunnar sú að eftirspurn á flestum markaðssvæðum heimsins hefur verið að aukast. Búist er við því að olíuverð gæti hækkað enn frekar á næstunni, ekki síst vegna vaxandi eftirspurnar frá Asíuríkjum og Evrópu sömuleiðis, en þar hafa hagtölur verið að batna mikið að undanförnu.
Hækkun olíuverðsins eru góðar fréttir fyrir Noreg, enda hagkerfi landsins nátengt sveiflum í olíuiðnaði. Samkvæmt skrifum Worldoil hafa fyrirtæki í olíuiðnaði í landinu uppfært rekstraráætlanir sínar fyrir næsta ár, með jákvæðum formerkjum, og reikna með meiri umsvifum á komandi ári vegna betri stöðu í olíuiðnaði.
Oil price rises to highest in more than two years https://t.co/Hml6KJJLC5
— Houston Chronicle (@HoustonChron) November 24, 2017
Þrátt fyrir þetta hefur Norski olíusjóðurinn, sem nú á eignir upp á meira en þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða ríflega 103 þúsund milljarða króna, sett sér markmið um að draga sig út úr fjárfestingum í olíuiðnaði og jarðgasi. Sjóðurinn á um 1,3 prósent af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum og er stærsti fjárfestingarsjóðurinn sinnar tegundar í heiminum.