Ný könnun Zenter um viðhorf landsmanna til þess hver ætti að verða næsti forsætisráðherra þjóðarinnar sýnir að 49,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja fá Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, í það hlutverk. Þegar öll svör voru skoðuð hafði Katrín einnig mikla yfirburði en 43,6 prósent allra sem svöruðu vildu hana sem næsta forsætisráðherra.
Könnunin, sem var gerð daganna 10-21. nóvember, var gerð fyrir stuðningshóp Katrínar. Í henni voru 2.048 manns spurðir: „Hvern eftirfarandi myndir þú vilja sjá sem næsta forsætisráðherra Íslands?“ og gátu svarendur valið úr hópi forystumanna íslenskra stjórnmálaflokka. Svarendur voru 1.061 og svarhlutfall því 52 prósent.
Sá sem næst oftast var nefndur af þeim sem tóku afstöðu var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks. Alls vildu 20,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu fá hann í starfið. Þar á eftir kom Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins (10,2 prósent þeirra sem tóku afstöðu).
Alls vildu 7,6 prósent að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, myndi taka að sér starfið en aðrir formenn eða formannsígildi nutu minni stuðnings.
Katrín vinsælust hjá öllum tekjuhópum
Katrín nýtur meiri stuðnings hjá konum en körlum og yngra fólk er hallara undir hana en það sem eldra er. Þá nýtur hún meiri stuðnings á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Vert er að taka fram að Katrín nýtur þó mest stuðnings í hlutverkið hjá báðum kynjum og öllum aldurshópum.
Bjarni nýtur meiri stuðnings en Katrín í starf forsætisráðherra í tveimur byggðarkjörnum, annars vegar í Garðabæ (þar vilja 48 prósent íbúa að Bjarni verði forsætisráðherra) og á Reykjanesi (þar vildu 37,8 prósent Bjarna en 34,3 prósent Katrínu).
Katrín nýtur minnst stuðnings í starfið hjá atvinnurekendum en samt vilja fleiri slíkir hana en Bjarna. Athygli vekur að stuðningur við Katrínu sem forsætisráðherra eykst eftir því sem menntunarstig verður hærra.
Þá styðja tekjulægri hóparnir mun frekar Katrínu í starfið en tekjuhærri hóparnir, þótt hún njóti mest stuðnings allra stjórnmálaleiðtoga í öllum tekjuhópum einstaklinga. Bjarni nýtur mun meiri stuðnings hjá efstu tekjuhópunum, óháð því hvort um sé að ræða persónulegar tekjur eða tekjur heimilis.