Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, sagði í ávarpi sínu á aðalafundi félagsins á föstudag að fjölmiðlaumfjöllun um hlutabréfaeign hæstaréttardómara í lok árs 2016 hafi verið þaulskipulögð aðgerð sem átt hefði að koma höggi á trúverðugleika íslenskra dómstóla. Þá hafi aðgerðin hugsanlega átt að reyna knýja tiltekna dómara til að segja af sér embætti.
Þessi staða hafi augljóslega verið óviðunandi. „Öllum mátti vera ljóst að verið var að beita dómara, íslenska dómskerfið, þrýstingi og það með samstilltum aðgerðum.“
Gagnrýndi Fréttablaðið harðlega
Í ávarpi sínu sagði Skúli að þegar litið væri yfir fjölmiðlaumfjöllun síðustu ára væri ljóst að íslenskir dómarar og dómstólar hefðu ítrekað þurft að sæta mjög neikvæðri og í ýmsum tilvikum ómálefnalegri umfjöllun í opinberri umræðu.
Þar mætti meðal annars nefna umræðu um ofurlaunahækkanir dómara á árinu 2015 sem hafi einkum verið rekin áfram af Fréttablaðinu en hafi einnig teygt anga sína til annarra fjölmiðla 365 miðla. „Ítrekað voru fluttar fréttir af margra tuga prósenta launahækkun dómara þegar allir þeir sem vildu kynna sér málið gátu séð að raunveruleg hækkun á launum dómara samkvæmt úrskurði Kjararáðs í árslok 2014 hafði numið 6-7%. Umfjöllunin þjónaði þeim augljósa tilgangi að skapa þá mynd af dómurum hjá almenningi að þeir væru einhvers konar forréttindahópur. Engu máli skipti þótt umfjöllunin væri leiðrétt, blaðið hélt við sinn keip. Það var ekki fyrr en ítrekuð skrif blaðsins voru kærð til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem þessu linnti.“
Skúli sagði að þá hefði Fréttablaðið fundið nýjan þráð, aukastörf dómara og fjármál þeirra. Sú umfjöllun hafi snúið að hagsmunaskráningu dómara. „Ég minnist þess að hafa átt samtal við blaðamann Fréttablaðsins sem spurði mig hvers vegna í ósköpunum dómarar þyrftu að eiga hlutabréf eða hluti í hlutabréfasjóðum. Hvers vegna þeir gætu ekki haft sinn sparnað inn á sparisjóðsbók? Þegar leið á samtalið varð mér ljóst að blaðamaðurinn hafði hringt í mig til tjá sínar skoðanir á málinu en ekki til þess að taka eiginlegt viðtal. Það þurfti svo sem ekki að kom á óvart. Fréttablaðið flutti reyndar frétt um aukastörf þess sem hér talar. Sú frétt er væntanlega fæstum í minni enda var þar afskaplega lítið kjöt á beinunum,“ sagði Skúli í ávarpi sínu.
Umfjöllun um hlutabréfaeign
Skúli sagði síðan að keyrt hafi um þverbak í desember fyrir ári síðan. Þá hafi Fréttablaðið birt á forsíðu myndir af persónulegum gögnum þáverandi forseta Hæstaréttar sem hafi augljóslega stafað frá fyrrverandi viðskiptabanka hans. Skúli segir að gögnin hafi þar af leiðandi hafa verið illa fenginn. Kvöldið áður hefði Kastljós fjallað um sama mál í umfjöllun sem hafi greinilega byggt á sömu gögnum. Næstu daga hefði Fréttablaðið síðan birt myndir af fleiri nafngreindum hæstaréttardómurum og upplýsingar um hlutabréfaeign þeirra.
„Upphaflega var fréttin sú að tilteknir dómarar, þ.á m. forseti Hæstaréttar, hefðu ekki tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt gildandi lögum og reglum. Sá fréttaflutningur reyndist þó fljótt haldlaus, a.m.k. að öllu verulegu leyti. Þeir dómarar sem um var að ræða, a.m.k. þeir sem fjölmiðillinn hafði mestan áhuga á, höfðu tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt reglum þótt nefnd um störf dómara hefði illa haldið á skráningu upplýsinga hjá sér. Þetta skipti þó litlu máli því nú var kvæðinu einfaldlega vent í kross og hafin umfjöllun um að hlutaðeigandi dómarar hefðu verið vanhæfir í málum þess banka sem þeir höfðu átt hlutabréf í en samt sem áður tekið þátt í afgreiðslu þeirra. Og enn og aftur var boltinn gefinn upp með það að reglur á Íslandi um aukastörf dómara og skráningu þessara starfa væru með einhverjum hætti stórgallaðar og frábrugðnar því sem almennt tíðkast. Almenningur í landinu átti að fá það á tilfinninguna að eitthvað meiriháttar væri að í dómskerfinu.“
Segir um þaulskipulagða aðgerð að ræða
Skúli sagði í ávarpi sínu að það hafi ekki getað farið á milli mála hvaða tilgangi afhending gagnanna úr Glitni hefði átt að þjóna. „Allt ber þetta að sama brunni: um var að ræða þaulskipulagða aðgerð til að koma höggi á trúverðugleika íslenskra dómstóla, hugsanlega að reyna knýja tiltekna dómara til að segja af sér embætti.“
Að mati Skúla var þessi staða, sem kom upp í desember 2016, óviðunandi. Öllum hafi verið mátt ljóst að verið væri verið að beita dómara, íslenska dómskerfið, þrýstingi með samstilltum aðgerðum. „Hvað gekk þeim aðila eða aðilum til sem öfluðu persónulegra gagna með ólögmætum hætti - væntanlega með því að greiða fyrir þau - og komu þeim til tiltekinna fjölmiðla? Þeirri spurningu hefur enn ekki verið svarað enda hafa fjölmiðlar - með örfáum undanteknum - ekki hirt um að spyrja hennar. Sami aðili eða sömu aðilar geta því endurtekið leikinn og munu eflaust gera það. Hverju hafa þeir að tapa?“
Hann sagði það hafa vakið athygli að þegar þessar aðstæður voru komnar upp hafi hvorki dómsmálaráðherra né annar fulltrúi ríkisstjórnar séð ástæðu til þess að skerast í leikinn með einhverjum hætti. Þá hafi hvorki Alþingi né alþingismenn brugðist við málinu með nokkrum hætti.“