Um hundrað og sextíu félagar í VG, víða að af landinu hafa skráð sig á flokksráðsfund Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem fram fer á Grand Hótel síðdegis á morgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Eina málið á dagskrá þessa aukaflokksráðsfundar er ríkisstjórnarsáttmáli Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, kynning, umræða og kosning.
„Fundurinn er opinn öllum félögum í VG, en atkvæðisrétt hafa aðeins fulltrúar í flokksráði. Þeir eru ríflega hundrað talsins. 40 þeirra eru kosnir sérstaklega í flokksráð, en til viðbótar eiga sæti í ráðinu, aðalmenn í stjórn, þingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn kjördæmisráða, formenn félaga, fulltrúi Eldri Vinstri grænna og fulltrúi Ungra vinstri grænna,“ segir í tilkynningunni.
Eins og greint hefur verið frá, hafa þingflokkar flokkanna þriggja fengið kynningu á stjórnarsáttmála mögulegrar, og líklegrar, ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.
Samkvæmt stjórnarsáttmálanum, þá verður fjármagnstekjuskattur verður hækkaður, hvítbók verður skrifuð um endurskipulagningu fjármálakerfisins, fæðingarorlof lengt og greiðslur til þeirra sem það taka hækkaðar, komu- og brottfarargjöld verða lögð á og gistináttagjald mun renna óskert til sveitarfélaga. Stofnaður verður stöðugleikasjóður, sem kallaður verður Þjóðarsjóður, og skipaðar þverpólitískar nefndir um endurskoðun á stjórnarskrá og um hvort þurfi að endurskoða útlendingalögin.
Búist er við nokkuð hreinskiptum fundi hjá Vinstri grænum, þar sem deildar meiningar hafa verið uppi um það innan flokksins hvort það sé gæfuspor fyrir flokkinn að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Katrín Jakobsdóttir hefur þó sagt, að hún hlakki til þess að kynna málefnasamningin, eða stjórnarsáttmála, fyrir samherjum sínum.