Formaður stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins, Ásgeir Thoroddsen, segir í grein í Morgunblaðinu í dag, að tap sjóðsins vegna kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík sé „áfall“ fyrir stjórnina. Hann segir að sjóðurinn hafi hins vegar ávaxtað eignir vel á undanförnum árum, og að sjóðfélagar, sem eru 55 þúsund talsins, verði að horfa á heildarmyndina. Stundum geti orðið tap af fjárfestingum, en yfir heildina þurfi sjóðurinn að ná markmiðum um góða ávöxtun, og það hafi tekist hjá Frjálsa. Rekstur sjóðsins er í höndum Arion banka, samkvæmt sérstökum samningi þar um, og hefur það verið gagnrýnt, að sjóðurinn hafi fjárfest með bankanum í verkefninu í Helguvík. Ásgeir segir reynsluna af rekstri Arion banka góða.
„Þetta er að sjálfsögðu áfall fyrir stjórn sjóðsins og sérstaklega ber að harma þau óþægindi sem verksmiðjan hefur valdið íbúum í Reykjanesbæ,“ segir Ásgeir í grein sinni, og segir í lokaorðum að þrátt fyrir tap af fjárfestingu sjóðsins í Helguvík verði ávöxtunin góð á þessu ári. „Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur skilað góðri ávöxtun á árinu 2017. Nafn- ávöxtun hinna mismunandi fjárfestingarleiða sjóðsins það sem af er árinu, að teknu tilliti til þess að fjárfesting í United Silicon tapist, er á bilinu 6,3% - 6,8%. Það sem skiptir þó enn meira máli er að ávöxtun til lengri tíma sé góð og hjá sjóðnum er hún 8,9% - 9,2% á sama grunni sl. 15 ár. Sjóðfélagar skoða heildarmyndina en ekki einstaka þætti þegar þeir ákveða að treysta Frjálsa lífeyrissjóðnum fyrir sparnaði sínum,“ segir Ásgeir.
Útlit er fyrir að United Silicon fari í gjaldþrot með tilheyrandi tapi fyrir hluthafa og kröfuhafa, en Arion banki hefur á þessu ári þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins.
Bankinn hefur að mestu tekið yfir hlutafé en útistandandi skuldbindingar nema ennþá 5,4 milljörðum, samkvæmt síðasta birta uppgjöri bankans.
United Silicon er nú í greiðslustöðvun en sá tími rennur út í desember. Arion banki hefur ábyrgst reksturinn á greiðslustöðvunartímanum en hann hefur borgað um 200 milljónir króna á mánuði vegna hans, frá því greiðslustöðvunartíminn hófst í ágúst.
Ljóst er nú að marga milljarða kostar að ljúka uppbyggingu verksmiðjunnar - sem var ekki tilbúin þegar hún var gangsett - og koma henni í gang á nýjan leik, ef það fæst til þess leyfi, en Umhverfisstofnun lét loka verksmiðjunni, meðal annars vegna kvartana íbúa í nærumhverfi yfir mengun.
Fyrrverandi forstjóri og forsprakki United Silicon, Magnús Garðarson, hefur verið kærður til embættis Héraðssaksóknara. Stjórn United Silicon gerði það í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun, og send kæru til Héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar. Í tilkynningu segir að kæran byggi á „grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila. Upplýsingarnar sem nú koma fram eru afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar. Hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst.“ Eru upphæðir sagðar hlaupa hundruð milljóna króna.
Magnús hefur sjálfur neitað alfarið sök.