Áframhald verður á miklum vaxandi umsvifum á Keflavíkurflugvelli, á vegum Isavia á næstu árum, gangi spár um þróun farþegafjölda sem fer um flugvöllinn eftir.
Sé horft til beinna nýrra starfa sem verða til á þessu ári og til ársins 2021, þá munu 4.715 ný störf verða til á fyrrvernefndu tímabili.
Þetta er meðal þess kom fram á fundi Isavia í gær þar sem fjallað var um farþegaspá og horfur í ferðaþjónustu.
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, kynnti farþegaspá Isavia, en samkvæmt spánni munu 10,4 milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári, eða um 18 prósent fleiri en á þessu ári. Til marks um hversu mikil aukningin hefur verið þá fóru um tvær milljónir farþega um völlinn 2010, á stofnári Isavia en félagið er í eigu íslenska ríkisins.
Mest verður fjölgunin meðal svonefndra skiptifarþega, sem eingöngu millilenda á vellinum á leið sinni til Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada. Reiknað er með því að fjölgun slíkra farþega verði 33 prósent, en heldur mun hægja að fjölgun komu- og brottfararfarþega á vellinum, og verður fjölgunin um 10 prósent. Sú fjölgun þykir þó mikil í alþjóðlegu samhengi.
Í máli Hlyns kom fram að mikil fjölgun farþega utan háannatíma yfir sumarmánuði hafi fest ferðaþjónustuna betur í sessi sem heilsársatvinnugrein, og haft mikil jákvæð efnahagsleg áhrif á Íslandi. Til marks um vöxtinn er gert ráð fyrir að fleiri ferðamenn heimsæki Íslandi í janúar á næsta ári en komu í júní ári 2015.