Flokksráð Vinstri grænna samþykkti nú í kvöld að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Stjórnarsáttmáli væntanlegrar ríkisstjórnar var kynntur á fundi á Grand hótel í kvöld og svo var kosið um ríkisstjórnarsamstarf sem myndað yrði um þann sáttmála. 81 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við samningnum.
Alls geiddu 93 atkvæði og af þeim sögðu 75 já. 15 sögðu nei og þrír seðlar voru auðir. Katrín Jakobsdóttir þakkaði fundarmönnum í kjölfarið fyrir góðar og hreinskiptar umræður og mikilvæg rök með og á móti. Í tilkynningu kemur fram að nokkrir félagsmenn hafi kvatt Vinstri græn vegna samstarfsins. Hátt í 200 manns sóttu fundinn í kvöld.
Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, greindu frá því fyrr á fundinum að þau styðji ekki ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.
Andrés Ingi sagði í ræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins í kvöld, þar sem hann færði rök fyrir ákvörðun sinni um að styðja ekki stjórnarsamstarfið, að hann óttist að flokkurinn yrði of „samdauna“ samstarfsflokkunum, og gæti ekki haft nægilega mikil áhrif.
Hann sagði auk þess að margt í stjórnarsáttmálanum væri of líkt því sem fráfarandi ríkisstjórn hafi verið með í sínum sáttmála, og það sé ekki eitthvað sem Vinstri græn geti sætt sig við.
Í ræðu sinni sagði hann að textinn sem tengdist umfjöllun um skattamál hefði allt eins geta komið frá Viðskiptaráði en Vinstri grænum.
Sjálfstæðismenn samþykktu stjórnarsamstarfið einróma fyrir sitt leyti fyrr í kvöld. Miðstjórn Framsóknarflokksins er enn að funda um málið.