Björgólfur Thor Björgólfsson, sem var annar aðaleigandi Landsbankans ásamt föður sínum fyrir hrun, segir að íslenska þjóðin eigi rétt á að vita hvernig mál voru vegin og metin, hvaða gögn lágu til grundvallar og hver réð því endanlega að Kaupþing fékk 500 milljóna evra lán frá Seðlabanka Íslands 6. október 2008. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á heimasíðu sem Björgólfur Thor heldur úti.
Þar fjallar hann um símtal milli Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, þar sem þeir ákveða að lána Kaupþingi umrædda fjárhæð. Kaupþing féll samt sem áður nokkrum dögum síðar og íslenskir skattgreiðendur töpuðu 35 milljörðum króna á lánveitingunni.
Forsætisráðherra ekkert nema fum og fát
TIlefni umfjöllunarinnar er birting Morgunblaðsins, sem Davíð ritstýrir í dag, á endurriti af símtalinu fyrir tíu dögum síðan. Það var í fyrsta sinn sem endurritið var birt opinberlega.
Björgólfur Thor segir að örlög íslensku bankanna hafi verið í afar ómerkilegu og lítið grunduðu samtali í hádeginu mánudaginn 6. október 2008. „Reyndar virðist Seðlabankinn vera faglegri í sinni nálgun, en forsætisráðherra er ekkert nema fum og fát. Í endurriti símtalsins kemur fram að Geir H. Haarde spyr Seðlabankastjórann hvort Landsbankinn hafi ekki veð. „En er Landsbankinn ekki með neitt slíkt, sem hann getur látið okkur hafa?“ spyr hann, þegar Davíð seðlabankastjóri ræðir um veð Kaupþings. „Já, en þá er að við erum ekki með pening í þetta,“ svarar seðlabankastjórinn.
Þetta var öll fagmennskan! Einhver tilfinning fyrir því hvað einhverjir sögðu daginn áður, „allavega þessir Morgan menn“. Þar var forsætisráðherra eflaust að vísa til erlendra sérfræðinga, sem voru nýkomnir til landsins og höfðu skimað yfir bankalandslagið. Ekki bera þessir „Morgan menn“ ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin var? Hún virtist tekin af því að „það slær mig þannig sko“!
Þjóðin á rétt á að vita
Björgólfur Thor segir símtalið sjálft þó ekki segja alla söguna. „Kannski varpar væntanleg skýrsla Seðlabankans einhverju ljósi á málið, þótt ég sé ekki bjartsýnn á að svo verði. Ekki verður betur séð en að margir séu þeirrar skoðunar að þjóðinni komi ekkert við hvað varð um gjaldeyrisforða hennar þennan örlagaríka dag í október 2008. Slíkt er auðvitað fjarstæða. Sá sem hlýtur að vera endanlega ábyrgur fyrir ákvörðuninni, þáverandi forsætisráðherra, ætti ekki að draga lengur að leggja fram þau rök, sem voru að baki henni. Í fórum hans eða forsætisráðuneytisins hlýtur a.m.k. að vera eitthvað minnisblað, sem skýrir þessa ákvörðun, þó ekki væri nema nokkrar setningar hripaðar niður eftir Morgan-mönnunum svokölluðu. Þjóðin á rétt á að vita, hvernig mál voru vegin og metin, hvaða gögn lágu til grundvallar og hvað endanlega réði því að Kaupþing fékk lánið.“