Ásmundur Einar Daðason verður næsti félagsmálaráðherra Íslands. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið mun setjast Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Lilja Alfreðsdóttir mun verða menntamálaráðherra. Þetta var ákveðið á þingflokksfundi Framsóknarflokksins núna í hádeginu.
Heimildir Kjarnans herma að Jón Gunnarsson hafi missti ráðherrastól sinn en að öðru leyti verði ráðherralið Sjálfstæðisflokks eins mannað. Kristján Þór Júlíusson verður færður um set í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, verður fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Guðlaugur Þór Þórðarson verður áfram utanríkisráðherra, Sigríður Andersen áfram ráðherra dómsmála og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir áfram ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Jón Gunnarsson þykir líklegastur til að detta út úr ríkisstjórninni.
Fyrr í dag var greint frá því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, verður næsti umhverfisráðherra þjóðarinnar. Hann mun sitja sem slíkur fyrir hönd Vinstri grænna þrátt fyrir að vera ekki þingmaður flokksins.
Svandís Svavarsdóttir verður næsti heilbrigðisráðherra þjóðarinnar og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, forsætisráðherra. Steingrímur J. Sigfússon verður forseti Alþingis.
Í ríkisstjórninni munu því sitja sex karlar og fimm konur. Eini flokkurinn sem verður með fleiri konur í ráðherraliði sínu eru Vinstri græn.