Uppgjör Össurar á þriðja ársfjórðungi var nokkru undir væntingum greiningar Capacent, sem verðmetur félagið nú á 1.428 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 147 milljörðum króna. Það er langt undir markaðsvirði félagsins, sem nam um 202 milljörðum króna við lokun markaða í gær, eða sem nemur 55 milljörðum hærra verði en greining Capacent gerir ráð fyrir í sinni greiningu á rekstri félagsins.
Síðustu viðskipti með hlutabréf Össurar í íslensku Kauphöllinni verða í dag, en eftirleiðis fara viðskipti með bréf félagsins eingöngu fram í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.
Í greiningu Capacent kemur fram að verðmyndun með bréf félagsins í íslensku Kauphöllinni hafi ekki verið góð og oft nærri 5 prósent munur milli kaup- og sölutilboða, auk þess sem að miklar sveiflur hafi verið í gengi bréfanna milli daga.
Stærsti eigandi hlutabréfa í Össuri er danska félagið William Demant sem á 42,1 prósent í félaginu. „Að mati Capacent hefur gengi Össurar á markaði verið of hátt og hefur verð bréfa félagsins endurspeglað yfirtökuálag vegna áhuga William Demant á félaginu,“ segir í greiningu Capacent.
Í greiningu Capacent á rekstri félagsins, á fyrstu 9 mánuðum ársins, segir að gengisstyrking krónunnar hafi komið niður á arðsemi félagsins. Sala og framlegð hafi verið „í lægri kanti þess sem væntingar Capacent stóðu til en kostnaður og kostnaðarhlutföll voru mun hærri. Ástæða meiri kostnaðar liggur fyrst og fremst í styrkingu krónunnar, auk þess sem að Össur hefur verið að fjárfesta mikið í rannsóknum það sem af er árs,“ segir í greiningunni.
Rekstur Össurar hefur gengið vel undanfarin ár, að því er fram hefur komið máli Jóns Sigurðarssonar, forstjóra Össurar, í tilkynningum til kauphallar. Í fyrra nam hagnaður félagsins ríflega 50 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 5,2 milljörðum króna.
Eignir félagsins námu í lok árs í fyrra 746,3 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 75 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 467 milljónir Bandaríkjadala, eða um 48 milljarðar króna.