Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, studdi ekki ráðherraskipan flokks síns. Hann segist þó styðja ríkisstjórnina og að hann hafi greitt atkvæði með stjórnarsáttmálanum.
Páll var mjög ósáttur með að hafa ekki fengið ráðherraembætti í síðustu ríkisstjórn og lét þá óánægju mjög í ljós opinberlega. Í stöðuuppfærslu á Facebook í dag opinberar hann að sú óánægja sé síst minni nú þegar verið sé að mynda nýja stjórn án þess að hann fái ráðherraembætti.
Þar segir Páll: „Í annað sinn á innan við ári hefur formaður Sjálfstæðisflokksins nú gengið framhjá Suðurkjördæmi þegar kemur að ráðherraskipan í ríkisstjórn sem flokkurinn á aðild að. Þetta gerist þrátt fyrir að kjördæmið sé annað höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins á landinu.
Ég mótmælti því harðlega í samtali við formanninn í morgun að hlutur kjördæmisins skuli þannig vera fyrir borð borinn og tilkynnti honum að af þessari ástæðu gæti ég ekki stutt þann ráðherralista sem hann lagði fyrir þingflokkinn.
Áréttað skal að ég greiddi atkvæði með stjórnarsáttmálanum og styð ríkisstjórnina.“