Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds J. Trump, Bandaríkjaforseta, hefur játað að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni FBI og hyggst vinna með yfirvöldum að frekari rannsókn á tengslum Rússa við kosningabaráttuna í Bandaríkjunum í fyrra.
Í umfjöllun New York Times segir að Flynn hafi ákveðið að vinna með saksóknaranum, Robert Mueller, og teymi hans, eftir að honum voru settir afarkostir, sem meðal annars beindust að því að yfirvöld myndu taka þátt sonar Flynn, Michael Flynn Jr., til sérstakrar frekari skoðunar, með ákæru í huga.
Talið er að Mueller og teymi hans beini nú spjótum sínum að Jared Kushner, tengdasyni forsetans, en hann er sagður hafa verið í samskiptum við Flynn og reynt að koma á sambandi við Rússa.
Michael Flynn is the fourth member of Trump's campaign team to be criminally charged in Russia investigation https://t.co/iQsClaHe9B pic.twitter.com/jtmhCjYvdb
— Newsweek (@Newsweek) December 2, 2017
Flynn var þjóðaröryggisráðgjafi Trumps í rúmlega þrjár vikur, en hann hætti störfum, þar sem talið var að hann hefði ekki greint Mike Pence, varaforseta, rétt frá samskiptum sínum við Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Áttu þeir meðal annars að hafa rætt um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum og hvort það væri hægt að slaka á þeim.
Flynn komst fyrst almennilega í fréttirnar þegar hann hélt þrumuræðu á fundi Repúblikana í aðdraganda kosninganna í fyrra, og lét meðal annars orðin falla um að það ætti að „læsa hana inni“ (lock her up) og vísaði þar til Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata.