Þrátt fyrir að mikill afgangur sé af vöru- og þjónustuviðskiptum, virðist sem það sé tekið að halla nokkuð undan fæti hjá fyrirtækjum í vöruútflutningi.
Vöruviðskipti á þriðja ársfjórðungi voru neikvæð um 47,5 milljarða en á sama tíma í fyrra voru þau neikvæð um 22,5 milljarða.
Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum þjóðarbúsins á þriðja ársfjórðungi var 68,1 milljaður en á sama tíma í fyrra var hann ríflega 100 milljarðar króna. Sem fyrr er það mikill vöxtur í ferðaþjónustu sem hefur mikil jákvæð áhrif á heildarstöðu íslenska hagkerfisins, en afgangur af þjónustuviðskiptum nam 117,5 milljörðum á þriðja ársfjórðungi. Afgangurinn var heildur meiri í fyrra á sama tíma, eða 122,7 milljarðar.
Góð staða
Staða þjóðarbússins, þegar kemur að eignum og skuldum erlendis, er góð um þessar mundir að mörgu leyti einstaklega góð, í sögulegu samhengi. Samkvæmt bráðabirgðayfirliti Seðlabanka Íslands námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.307 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.198 milljörðum króna. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 108 milljarða, eða sem nam 4,4 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 125 milljarða króna eða sem nam 5 prósent af VLF á milli ársfjórðunga. „Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 72 ma.kr. Skuldir lækkuðu um 398 ma.kr. og erlendar eignir um 326 ma.kr. vegna fjármagnsviðskiptanna. Gengis- og verð- breytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um sem nam 91 ma.kr. Skýrist það af 4,5% verðhækkunum á erlendum hlutabréfamörkuðum og af 5% lækkun á gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog,“ segir í yfirlitinu.