Stjórn VR, ásamt Jóni Þór Ólafssyni alþingismanni, hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna ákvörðunar kjararáðs um hækkun á launum alþingismanna og ráðherra á síðasta ári.
Í tilkynningu segir að VR telji nóg komið af aðgerðarleysi stjórnvalda og hefur því ákveðið að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Hækkun alþingismanna og ráðherra, sem jafngildir 36-44 prósent hækkunar launa, sé úr öllum takti við almennar hækkanir á vinnumarkaði. „Þess er krafist að ákvörðunin sem stefnir stöðugleika á vinnumarkaði í bráða hættu, og hefur þannig bein áhrif á hagsmuni félagsmanna VR, verði tafarlaust ógilt með dómi.“
Hér má lesa stefnu VR í heild sinni.
Kjararáð ákvað með úrskurði sem opinberaður var á kjördaginn 28. október 2016, að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Hækkunin tekur gildi strax um mánaðamótin.
Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.
Í úrskurðarorðum sagði meðal annars að mikilvægt sé að æðstu embættismenn séu fjárhagslega sjálfstæðir. „Afar mikilvægt er að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir. Störf þeirra eiga sér ekki skýra hliðstæðu á vinnumarkaði enda eru þeir kjörnir til starfa í almennum kosningum og þurfa að endurnýja umboð sitt að minnsta kosti á fjögurra ára fresti. Forseta Íslands, ráðherrum og þingmönnum hafa ekki verið ákvarðaðar sérstakar greiðslur fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma, þrátt fyrir að störf þeirra fari að hluta til fram utan hans,“ segir í úrskurðinum.