Vinstri græn mælast með 23,5 prósent fylgi í nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag, og Sjálfstæðisflokkurinn með 26 prósenta fylgi. Ríkisstjórnin er með mikinn byr í segl, en 78 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust styðja stjórnina en 22 prósent voru á móti henni.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
„Ég er auðvitað bæði undrandi og glöð með þennan stuðning og þakklát fyrir þann með- byr sem við fáum í upphafi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, í viðtali við Fréttablaðið.
Vinstri græn fengu 17 prósent fylgi í nýafstöðnum kosningum og því virðist sem stjórnarþátttaka með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum sé ekki að hafa skaðleg áhrif á flokkinn, í það minnsta um þessar mundir.