Sautján milljón börn undir eins árs aldri anda að sér menguðu lofti og þar af leiðandi er þroska heilans stofnað í hættu, samkvæmt Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Mengun hefur mest áhrif á börn í Suður-Asíu en meira en tólf milljón barna búa á svæðum þar sem mengun er sex sinnum hærri en öruggt þykir. Fjórar milljónir barna eru í áhættuhópi í Austur-Asíu og Kyrrahafseyjunum.
Frá þessu er greint í frétt BBC í vikunni.
Samkvæmt samtökunum Unicef getur svifryksmengun haft slæm áhrif á heilavef og dregið úr vitsmunaþroska. Í skýrslu á vegum samtakanna kemur fram að mengun hafi áhrif á greindarvísitölu í orðuðu og óorðuðu samhengi, valdi slakari útkomu á prófum, lækki meðaleinkunnir grunnskólabarna auk þess að valda öðrum taugatengdum hegðunarvandamálum. Áhrifin eru varanleg og endast alla ævi, segir í skýrslunni.
Hættuástand í Delhi á Indlandi
Mikil mengun er allajafna í Delhi á Indlandi og greinir BBC frá því að um hættuástand sé að ræða. „Eftir því sem heimurinn verður þéttbýlli, án fullnægjandi varna og aðgerða til að draga úr mengun, þá munu sífellt fleiri börn vera í hættu þegar fram líða stundir,“ segir Unicef.
Samtökin mæla því með að sérstakar grímur verði notaðar í ríkara mæli sem og síur til að hreinsa loftið og að börn ferðist síður þegar mengunin er sem mest.
Ástandið var einstaklega slæmt í höfuðborg Indlands, Nýju-Delhi, í nóvember á þessu ári og lagðist þykkt mengunarský yfir alla borgina. Skólum var lokað og deilur spruttu upp um hvenær ætti að opna þá að nýju. Foreldrar sökuðu stjórnvöld um að huga ekki nægilega vel að heilsu barna í borginni.
Fréttir voru fluttar af íþróttamönnum að spila krikket á Indlandi og í Sri Lanka sem veiktust og ældu í miðjum leik.
Áhrifin víðar
Í Norður-Kína er talið að lífslíkur séu minni vegna mengunar og að meðalævilengd sé allt að þremur árum styttri vegna þess. Stjórnvöld þar í landi hafa samkvæmt BBC sett fyrirtækjum strangari reglur um útblástur en fjölmiðlar hafa greint frá því að þessar reglur séu iðulega virtar að vettugi.
Áhrif mengunar sjást þó ekki einungis í Asíu því samkvæmt rannsóknum í breskum borgum þá eykur mikil mengun líkur á ungbarnadauða og sjúkdómum sem koma í ljós síðar á ævinni.
Fylgst með loftgæðum á Íslandi
Á vefsíðu Veðurstofu Íslands segir að fyrir utan að fylgjast með veðri og loftslagi standi hún að margvíslegri umhverfisvöktun annarri, einkum varðandi mengunarefni sem eru langt að komin. Sýnum er safnað á svokölluðum bakgrunnsstöðvum, fjarri þéttbýli og öðrum staðbundnum uppsprettum mengunar.
Daglegar mælingar á brennisteini í úrkomu, andrúmslofti og svifryki eru kostaðar af Veðurstofunni. Mælingar á þungmálmum og þrávirkum lífrænum efnum í lofti og úrkomu eru kostaðar af alþjóðafé.
Umhverfisstofnun vaktar loftgæði á Íslandi og eru niðurstöður mælinga birtar nánast í rauntíma á vefnum. Einnig fylgist heilbrigðiseftirlitið með loftgæðunum í Reykjavík og gefur út viðvaranir ef þörf er á.