Fjármálaeftirlitið hefur opnað vefsvæði þar sem hægt er að tilkynna stofnuninni um brot, möguleg brot eða tilraunar til brota á fjármálamarkaði. Þeir sem starfa eða hafa starfað hjá eða fyrir eftirlitsskylda aðila, t.d. stjórnarmenn, starfsmenn, endurskoðendur og ráðgjafar, og hafa vitneskju um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum eru hvattir til að senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu. Æskilegt þykir að tilkynning innihaldi heiti þess fyrirtækis sem hið meinta brot átti sér stað í, nöfn stjórnarmanna þess, starfsmanna og annarra sem eiga hlut að máli. Þá eiga gögn sem styðja við að brot hafi verið framin að fylgja með, séu þau til staðar.
Þeir sem tilkynna um meint brot munu njóta nafnleyndar en að það gæti haft áhrif á trúverðugleika tilkynningar og eftirfylgni hennar ef ekki verður unnt að fá frekari upplýsingar og skýringar frá þeim sem tilkynnti. Þetta kemur fram í frétt á vef eftirlitsins.
Þar segir enn fremur að allar tilkynningar sem berist Fjármálaeftirlitinu verði metnar og skoðaðar með tilliti til þess hvort að tilefni sé til að fylgja þeim eftir með frekari athugun. „Ákvörðun um hvort tilkynningar leiði til frekari athugunar er ávallt í hendi Fjármálaeftirlitsins. Þar sem Fjármálaeftirlitið er bundið ríkri þagnarskyldu um samskipti sín við eftirlitsskylda aðila eiga þeir sem tilkynna ekki rétt á upplýsingum um hvort stofnunin hafi eða muni taka tilkynninguna til frekari athugunar.“
Samkvæmt gildandi lögum eiga fjármálafyrirtæki að hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna þeirra um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækisins.
Starfsmenn fjármálafyrirtækja geta því valið milli þess að senda tilkynningu beint til Fjármálaeftirlitsins eða tilkynnt um málið innan þess fjármálafyrirtækis sem þeir starfa hjá. Það fyrirtæki á síðan að senda tilkynnt mál áfram til frekari rannsóknar til Fjármálaeftirlitsins ef tilefni er til.