Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir að fólk geti ekki gengið að því vísu að hlutirnir muni ekki breytast til hins verra og jafnvel stríðstímar, líkir þeim sem sáust á tímum heimstyrjaldanna, brjótist út á nýjan leik.
Á ráðstefnu í Chicago sagði hann að fólk ætti að hugsa til þess að þróuð samfélög geti breyst skyndilega, ef aðstæður til þess skapast.
Hann brýndi fyrir gestum að það þyrfti að vernda lýðræðið, og fólk yrði að muna að taka þátt og kjósa. Þegar kæruleysi gerði vart um sig í samfélögum þá geti það leitt til óstöðugleika sem grafi hratt undan samfélögum, jafnvel þeim sem teljast sterk fyrir.
Hann bað fólk um að hugsa til þess sem hefði gerst í Þýskalandi þar sem uppgangur nasismans hefði endað með skelfingu, og 60 milljónir manna hefðu látið lífið, í glundroða átökum víða um heiminn. Allt hefði þetta gerst á tiltölulega skömmum tíma, og sprottið upp í samfélögum sem voru þróuð og framfarir augljósar.
Aðstæður eins og þessar geti komið upp, og að hlutirnir geti breyst hratt til hins verra ef fólk hugsaði ekki um að vernda lýðræðið og taka þátt í því að bæta samfélagið.
Obama invokes Nazi Germany in warning about today's politics https://t.co/hGTGzfZ6ex https://t.co/BeDdGXYywh
— Anderson Cooper 360° (@AC360) December 9, 2017
Obama hefur að mestu haldið sig til hlés eftir að hann hætti sem forseti og Trump tók við, en hefur þó gagnrýnt áherslur hans í innflytjendamálum og einnig fleiri stefnumál, meðal annars áherslur í utanríkismálum og einkum áherslu hans á að slíta Bandaríkin frá alþjóðsamstarfi eins og Parísarsamkomulaginu. Hann hefur lagt mesta áherslu á að virkja fólk til þátttöku í stjórnmálum, og sagt því að taka lýðræðið alvarlega. Ekkert komi af sjálfu sér og kæruleysi geti leitt til mikilla erfiðleika.