Velta erlendra greiðslukorta á Íslandi var um 188 milljarðar króna fyrstu átta mánuði ársins, eða sem nemur um 23,5 milljörðum króna að meðaltali á mánuði. Það er rúmlega 63 prósent aukning frá 2015 og samsvarar 542 þúsund á hvern landsmann.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, þar sem meðal annars er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Hann segir að verslun í miðborg Reykjavíkur standi nú og falli með erlendum ferðamönnum.
Hann segir jafnframt að ef það takist að tengja Ísland beint með Asíuflugi árið 2019, eins og til standi, þá geti það þýtt mikla innspýtingu fyrir hagkerfið.
Hann segir ástæðu til bjartsýni fyrir hönd verslunar á Íslandi meðal annars vegna þessa, en kortavelta erlendra ferðamanna er nú orðin svipuð og innlend debetkortavelta, að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins. „Ef íslensk flugfélög hefja beint flug til Asíu 2019 munum við sjá meiri sprengju í þessum geira en hingað til. Margir Asíubúar hafa mikinn kaupmátt,“ segir Andrés í viðtali við Morgunblaðið.
Búist er við því að erlendir ferðamenn verði um 2,3 milljónir á þessu ári en fjölgun þeirra hefur verið gríðarlega hröð undanfarin ár. Árið 2010 voru ferðamennirnir 450 þúsund.