Doug Jones, 63 ára gamall saksóknari og frambjóði Demókrata, vann óvæntan sigur í kosningum um sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann lagði Repúblikanann Roy Moore, fyrrverandi dómara í Alabama, en Donald Trump Bandaríkjaforseti studdi hann og hvatti stuðningsmenn Repúblikana til að kjósa hann.
Margar konur í Alabama hafa stigið fram á undanförnum vikum og mánuðum og sakað Moore um að hafa brotið gegn þeim kynferðislega, þegar þar voru undir lögaldri, en Moore hefur neitað ásökununum. Trump tjáði sig ekki um þær, og studdi Moore eindregið í kosningabaráttunni. Svo virðist sem þessar stuðningsyfirlýsingar Trumps hafi þjappað Demókrötum í Alabama saman, því ríkið er þekkt fyrir yfirgnæfandi stuðning við Repúblikana í gegnum tíðina.
The people of Alabama will do the right thing. Doug Jones is Pro-Abortion, weak on Crime, Military and Illegal Immigration, Bad for Gun Owners and Veterans and against the WALL. Jones is a Pelosi/Schumer Puppet. Roy Moore will always vote with us. VOTE ROY MOORE!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 12, 2017
Kosningarnar fóru fram þar sem Jeff Sessions, öldungadeildarþingmaðurinn, tók við embætti dómsmálaráðherra í stjórn Trumps, og því þurfti að kjósa til að fylla skarð hans í öldungadeildinni.
Jones er einna þekktastur fyrir lögmannsstörf í Alabama, og var hann meðal þeirra sem vann að málsókn gegn meðlimum Ku Klux Klan samtakanna sem brenndu niður kirkju í Birmingham, árið 1963, með þeim afleiðingum að fjórar stúlkur létust. Hann sótti málið sem saksóknari en málið vakti mikla athygli og leiddi til mikillar umræðu um kynþáttahyggju og kynþáttahatur í Bandaríkjunum.
Niðurstaðan í kosningunni er áfall fyrir Repúblikana sem nú halda naumari meirihluta en áður, 51 - 49, í öldungadeildinni. Þetta er í fyrsta sinn í aldarfjórðung sem Demókratar ná að hafa betur en Repúblikanar í kosningu um sæti Alabama í öldungadeildinni.