Pressan ehf. hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Kristján B. Thorlacius hefur verið skipaður skiptastjóri í búinu en það staðfestir hann í samtali við fréttastofu Vísis.
Krafan um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta kemur frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja samkvæmt Kristjáni, en Stundin greindi einnig frá því í gær. Skuldir eru þó við munu fleiri, eins og komið hefur fram hjá nýrri stjórn, en Ómar R. Valdirmarsson, hdl., er formaður stjórnar félagsins. Aðrir í stjórn eru Matthías Björnsson og Þorvarður Gunnarsson.
Eins og fram hefur komið, þá er grunur uppi um lögbrot í starfsemi félagsins, og hefur ný stjórn kært Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarformann og stóran hluthafa Pressunnar, til Héraðssaksóknara vegna lögbrota. Málin eru nú í rannsókn.
Kristján segir í samtali við Vísi að hann muni á næstunni setja sig inn í málefni félagsins, og sinna hefðbundnum störfum skiptastjóra.
Í tilkynningu sem ný stjórn Pressunnar sendi frá sér á dögunum, þegar hún tók við, kom fram að það yrði verkefni nýrrar stjórnar verði að glöggva sig á fjárhag félagsins og meðferð fjármuna. Eftir það verði hægt að taka ákvörðun um hvort félagið verður gefið upp til skipta, og meta hvort atvik hafi verið með þeim hætti að vísa þurfi málum til héraðssaksóknara og gruns um lögbrot.
Það var gert, og var málefnum sem snéru að skattlegri meðferð, vísað til skattrannsóknarstjóra. Í tilkynningu sagði: „Stjórn Pressunar hefur nú undir höndum gögn sem sýna umtalsverðar skuldir við opinbera aðila, lífeyrissjóði og almenna kröfuhafa. Fráfarandi stjórn Pressunar hefur ekki getað upplýst eigendur og nýja stjórnarmenn félagsins um hvernig félaginu verði gert kleift að standa við sínar skuldbindingar. Skuldir Pressunar og tengdra félaga við Tollstjóra vegna opinberra gjalda nema um 150 milljónum króna auk umtalsverða vanskila annarra kröfuhafa. Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum voru nánast allar eignir Pressunnar ehf. og DV ehf. seldar til Frjálsrar Fjölmiðlunar ehf. þann 5. september síðastliðinn.
Ný stjórn félagsins hefur þá kaupsamninga undir höndum þar sem meðal annars kemur fram að kaupverð er greitt með yfirtöku á kröfu fráfarandi stjórnarformanns á félagið að fjárhæð 80.000.000 króna auk yfirtöku á handvöldum skuldum félaganna þar sem Björn Ingi Hrafnsson er í persónulegum ábyrgðum. Þetta ásamt öðrum atriðum, sem nánar verður gerð grein fyrir síðar, hefur gert það að verkum að legið hefur fyrir grunur um að ekki hafi einungis verið misfarið með fjármuni félaganna heldur hafi kröfuhöfum félaganna einnig verið mismunað í bága við lög,“ segir tilkynningu hinnar nýju stjórnar. Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. er eigandi að 68,27% hlut í Pressunni og hefur lagt umtalsverða fjármuni til reksturs Pressunar og tengdra félaga. Fyrrverandi stjórnarformaður Pressunar og fyrrum útgefandi hefur ítrekað haft í hótunum við stjórnarmenn Dalsins. Felast þær hótanir meðal annars í skrifum um einstaka hluthafa Dalsins sem lekið skal til fjölmiðla, sem eru byggðar meðal annars á gögnum og röksemdarfærslum sem notaðar voru af Novator í tilhæfulausum málaferlum við sömu aðila. Þá hefur ítrekað verið reynt að komast hjá því að halda hluthafafundi þrátt fyrir ósk stærsta hluthafa þannig að leita þurfti til ráðherra til að þvinga boðun fundarins. Þetta gefur til kynna að fyrrum stjórnarmönnum og stjórnendum Pressunnar sé umhugað um að eigendur félagsins og opinberir aðilar komist ekki yfir fjárhagslegar upplýsingar,“ segir í tilkynningunni.