Stjórn Klakka, áður Exista, hefur ákveðið að mæla með því við hluthafa félagsins að fyrirhugaðar kaupaukagreiðslur, sem hluthafafundur samþykkti á mánudag, verði dregnar til baka.
Um var að ræða greiðslur sem hefðu getað numið rúmlega 500 milljónum króna.
„Ástæðan fyrir ákvörðuninni eru hin hörðu viðbrögð sem kaupaukagreiðslurnar hafa vakið hjá almenningi. Stjórnin hefur hlýtt á þær athugasemdir sem fram hafa komið og og telur að óhjákvæmilegt sé að bregðast við til að skapa traust í garð félagsins. Slíkt traust sé enda grundvallaratriði fyrir alla sem stunda viðskipti á Íslandi. Stærsta eign Klakka er Lykill, sem hefur verið umsvifamikið í fjármögnun bifreiða- og atvinnutækja hér á landi á síðustu árum. Vill stjórn Klakka með þessari ákvörðun stuðla að því að friður geti ríkt um Lykil og þannig hámarkað virði félagsins í þágu allra hluthafa,“ segir í tilkynningu.
Fréttin verður uppfærð.