Íslenski fjölmiðillinn Nordic Style Magazine, sem heldur úti tímaritaútgáfu og vefumfjöllun um norræna hönnun og tísku, hefur ná samningi við bandaríska fyrirtækið Barnes & Noble, sem rekur 778 bóka- og tímaritaverslanir um öll ríki Bandaríkjanna.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Það var stofnað árið 2012 en eigendur þess eru Soffía Theódóra Tryggadóttir og Signý Kristinsdóttir. Í tilkynningunni segir Soffía að þetta sé mikill heiður fyrir útgáfuna. „Barnes & Noble höfðu samband við okkur að fyrra bragði og lýstu yfir áhuga á því að fá Nordic Style Magazine á prenti í allar sínar verslanir, eftir að hafa fylgst grannt með heimasíðunni okkar og skoðað veftímaritin sem við gáfum út,” sagði Soffía Theódóra, en hún stofnaði útgáfuna. „Blaðið kemur út í febrúar á nýju ári og við erum ótrúlega ánægð og þakklát með að mörg af flottustu fyrirtækjunum á Íslandi koma til með að auglýsa í fyrsta íslenska blaðinu sem fer á markað í Bandaríkjunum.”
Í tilkynningunni segir að þær Soffía Theódóra og Signý hafi deilt þeirri ástríðu að koma norrænni og þá sérstaklega íslenskri hönnun á framfæri á heimsvísu. „Síðan þá hefur miðillinn stækkað og dafnað og fjallar núna daglega um tísku, hönnun, listir og menningu frá öllum Norðurlöndunum. Í dag skrifa um 15 manns fyrir Nordic Style Magazine frá 9 mismunandi löndum,“ segir í tilkynningunni.
„Ég er gríðarlega stolt af þessum uppgangi sem gerir það að verkum að íslensk hönnun og listir fá aukna athygli. Mig hreinlega óraði ekki fyrir því að skömmu eftir að við störtuðum þessu að við myndum við vera með svo miklar heimsóknir á vefsíðuna og áhuga á efninu okkar sem kristallast kannski í því að Barnes & Noble hefur gengið hart á eftir okkur að gefa út blaðið okkar út á prenti. Það hjálpar að sjálfsögðu til að það hefur verið mikið hype í kringum Ísland undanfarin ár. Barnes & Noble vildu í raun og veru meira magn en við vorum til í að byrja með, en það er auðveldlega hægt að bæta við ef vel gengur,” segir Soffía Theódóra.
Barnes & Noble Inc var stofnað árið 1886, og er skráð á markað. Markaðsvirði þess við lokun markaða í gær var 495 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 52 milljörðum króna.