Pólitísk samstaða er að nást um það í Noregi að aðstoða fíkla meira en gert hefur verið með markvissari heilbrigðisþjónustu og stefnumótun á sviði lýðheislu. Þá er einnig horft til þess að afglæpavæða neyslu á fíkniefnum.
Þetta kemur fram í Verdens Gang og er þar meðal annars vitnað til viðhorfa innan Sósíalíska vinstri flokksins, þar sem fyrst og síðast er lögð áhersla á að það verði að hjálpa fíklum en ekki refsa þeim.
Samstaða, sem nú virðist vera að nást fram innan stjórnmálaflokka í Noregi, byggir á vinnu milli Hægriflokks Ernu Sjöberg, forsætisráðherra Noregs, og síðan þriggja vinstri flokka, Verkamannaflokksins, Vinstriflokksins og Sósíalíska vinstri flokksins.
Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, hefur sagt að hann hafi enga trúað hann hefði enga trú á refsistefnu gagnvart fíklum, heldur þætti honum betra að efla meðferðarúrræði og læknisþjónustu.
Óhætt er að segja að mikil umræða eigi sér nú stað víða um heim um hvernig best sé að berjast gegn vandamálum sem tengjast neyslu fíkniefna.
Vandamálin hafa magnast upp víða, og þá einkum í Bandaríkjunum, þar sem þróunin hefur verið ógnvænleg á undanförnum árum. Gríðarlega mikil aukning er á dauðsföllum vegna of stórs skammts fíkniefna, en á síðasta ári létust 64 þúsund einstaklingar í Bandaríkjunum af þeim orsökum.
Fjölgun dauðsfalla hefur verið gríðarlega hröð, eða 20 til 30 prósent aukning milli ára síðustu fimm árin. Frá árinu 2014 hafa 166 þúsund einstaklingar í Bandaríkjunum látist úr of stórum skammti, og búist er við því að talan fari yfir 70 þúsund á þessu ári. Sem þýðir að um 240 þúsund einstaklingar hafa dáið úr of stórum skammti á fjórum árum.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er mælst til þess að aðildarríkin breyti um stefnu í baráttunni við vandamál sem tengjast fíkniefnum, og horfi meira til þess að aðstoða fíkla, og dragi úr allri glæpavæðingu á neyslu efna.