Verkfall flugvirkja hjá Icelandair, sem hófst í gær klukkan 06:00, hafði áhrif á ferðatilhögun þúsunda farþega í gær, og er fyrirsjáanlegt að það muni halda áfram, á meðan ekki næst að semja um kaup og kjör.
Fundið var slitið á fjórða tímanum í nótt án niðurstöðu.
Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, sagði við mbl.is í gærkvöldi að það yrði setið við samningaborðið í löngum lotum, en að öðru leyti var ekkert hægt að segja um framganginn í viðræðunum.
It's morning in Reykjavik. Dear @Icelandair, please be conscientious of the negotiations currently taking place with #FVFI. If the strike takes place and thousands of flights are cancelled right before the holidays, that's going to be a hard bruise to recover from.
— Loren Mullen (@lorenmullen) December 16, 2017
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur sagt kröfur flugvirkja óásættanlegar en SA hefur metið þær á um 20 prósent hækkun launa. Þetta telja SA óboðlegar kröfur og að það sé ekki hægt að verða við þeim.
Flugvirkjar hafa ekki viljað tjá sig um kröfurnar að öðru leyti en því, að þeir hafa lítið gefið fyrir málflutning Samtaka atvinnulífsins og segja hann ekki svaraverðan.
Verkfallið nær til um 260 flugvirkja, en samkvæmt upplýsingum frá Icelandair þá verða um tíu þúsund farþegar fyrir áhrifum vegna verkfallsins á hverjum degi sem það varir.