Í úrskurði kjararáðs segir: „Með ákvörðun kjararáðs frá 19. júní 2007 voru laun biskups Íslands felld að sömu launatöflu og gilti fyrir aðra embættismenn sem kjararáð ákveður laun, en áður heyrði undir Kjaradóm að ákveða biskupi laun. Frá þeim tíma hafa laun hans tekið breytingum í samræmi við almennar ákvarðanir kjararáðs. Biskup Íslands er æðsti embættismaður hinnar stjórnarskrárbundnu íslensku þjóðkirkju. Við ákvörðun launakjara hans er höfð hliðsjón af því hlutverki hans og starfsskyldum samkvæmt lögum og starfsreglum sem og eðli og umfangi starfsins. Þá er einnig tekið mið af því innbyrðis samræmi sem kjararáði ber að gæta og áður er gerð grein fyrir.“
Hækkunin er afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um næstu mánaðarmót mun biskup því fá eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð nemur 3,3 milljónir króna.
Kjararáð tók kjör biskups til skoðunar eftir að biskup sendi bréf til ráðsins þess efnis, en biskup krafðist betri launa.