Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir í viðtali við Business Insider að markaður með rafmyntina Bitcoin sé „augljós bóla“. Hann segir að það sem hafi ýtt undir verðið á rafmyntinni sé vanþekking á tækninni á bak við hana og dulúðin sem einkenni markaðinn. Enginn viti í reynd hvernig markaðurinn gangi nákvæmlega fyrir sig.
Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman segir að verðhækkanir rafmyntarinnar Bitcoin að undanförnu stafi af því að enginn skilji í raun hvað hún sé og að fólk týnist í dulúð tækninnar.
We talked to Nobel Prize winning economist Paul Krugman about tax reform, Trump, and bitcoin https://t.co/Vlm6OjG33A pic.twitter.com/48HqomNpX1
— Business Insider (@businessinsider) December 15, 2017
„Það hefur ekki verið sýnt fram á að Bitcoin þjóni einhverjum tilgangi í efnahagslífinu,“ segir Krugman.
Krugman segir enn fremur að væntanlega reikni flestar fjárfestar með því að græða mikið á þeirri miklu verðhækkun sem verið hefur á markaði að undanförnu, en það sé alveg öruggt að einhverjir muni sitja eftir með sárt ennið.
Verðið á Bitcoin hefur rokið upp á þessu ári, en sveiflurnar hafa þó einnig verið hraðar. Stundum hefur verðið lækkað mikið innan dags, og aðra daga hefur það rokið upp. Í lok dags í gær stóð verðið á Bitcoin einingu í 16.400 Bandaríkjadölum, eða sem nemur 1,7 milljónum.
Það hefur fallið hratt í verði síðustu tvo daga, eða um 15 prósent, eftir að hafa verið í hæstu hæðum.