Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, segir að Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélagar hans sem eignuðust ráðandi hlut í bankanum fyrir hrun, hafi ekki haft neinn áhuga á bankarekstri. Þeir hafi náð stjórn á Glitni „Af því að þeir gátu það“. Kaupin hafi snúist um valdapólitík á Íslandi öðrum þræði. Þetta er haft eftir Lárusi í bók Björns Jóns Bragasonar, „Í liði forsætisráðherra eða ekki?“, sem nýverið kom út.
Lárus var forstjóri Glitnis frá 1. maí 2007 og þangað til að bankinn féll ásamt hinum stóru íslensku bönkunum í byrjun október 2008. Hann var ráðinn í starfið eftir að Jón Ásgeir og helstu viðskiptafélagar hans náðu yfirráðum yfir Glitni á vormánuðum 2007. Áður hafi Lárus verið stjórnandi hjá Landsbankanum í London, og m.a. séð um lánaviðskipti til útrásarverkefna Jóns Ásgeirs og tengdra aðila þar í landi. Lárus var 31 árs þegar hann tók við starfinu.
Lárus er hins vegar einn helsti heimildarmaður Björns Jóns í bókinni „Í liði forsætisráðherra eða ekki?“ og kemur þar fram sem nafngreind heimild. Á mörgum stöðum í frásögninni er vitnað í viðtal höfundar við Lárus.
„Hann fokkar okkur upp“
Lárus lýsir til að mynda nokkuð ítarlega sinni hlið af því sem gerðist í aðdraganda þess að ríkið reyndi að þjóðnýta Glitni, sem markaði upphaf hins formlega bankahruns. Á einum stað er haft eftir Lárusi að þegar Glitnir hafi leitað til Seðlabanka Íslands eftir fyrirgreiðslu, vegna láns sem var á gjalddaga um miðjan október en Glitnir átti ekki fyrir, hafi Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi stjórnarformaður bankans, haft tröllatrú á að þær umleitanir myndu lánast vel.
Jón Ásgeir, einn helsti eigandi Glitnis, var hins vegar á öðru máli og hafði enga trú á að Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, myndi vinna með Glitnismönnum. „Ekki séns, hann fokkar okkur upp,“ segir Lárus að Jón Ásgeir hafi sagt um Davíð. Þá hafði lengi andað köldu á milli Jóns Ásgeirs og Davíðs vegna Baugsmála og harðrar opinberar gagnrýni hvors á hinn.
Tók „hárblásarann“ á Davíð
Lárus greinir einnig frá því að kvöldið 28. september 2008, sem var sunnudagskvöld, hafi Davíð hringt í Þorstein Má og boðað stjórn Glitnis ásamt helstu hluthöfum á fund í Seðlabankanum. Því hafi verið hafnað en að lokum hafi náðst saman um að Þorsteinn kæmi til fundarins ásamt Lárusi og tveimur lögmönnum. Sá fundur hófst klukkan hálf ellefu að kvöldi og fór fram í fundarherbergi Seðlabankans sem kallað er „Batteríið“. Viðstaddir voru m.a. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíð. Geir bauð gestina velkomna en gaf svo Davíð orðið. Hann tilkynnti að Glitnir myndi fá 600 milljón evra fyrirgreiðslu gegn því að ríkissjóður tæki til sín 75 prósent eignarhlut í bankanum. Í bókinni segir að tilkynningin hafi komið Glitnismönnum í opna skjöldu. „Eftir að ákvörðunin hafði verið tilkynnt var gert stutt hlé svo Glitnismenn gætu ráðið ráðum sínum. Að fundarhléinu loknu brást Þorsteinn Már ókvæða við tillögunni og „tók hárblásarann“ á Davíð, eins og Lárus Welding orðar það.“
Í bókinni er einnig sagt frá þeim tíma þegar Jón Ásgeir var að bæta við hlut sinn í Glitni. Þá segist Lárus Welding hafa sagt við hann: „Jón, ekki kaupa hlut í banka nema þú hafir áhuga á bankarekstri.“ Í bókinni segir að sá áhugi hafi ekki verið til staðar og haft er eftir Lárusi að kaup í bankanum hafi snúist um valdapólitík á Íslandi öðrum þræði. Jón Ásgeir og félagar hans hafi náð stjórn á Glitni „af því að þeir gátu það“. Kaupin í bankanum hafi hins vegar ekki verið mjög djúpt hugsuð.