Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag, að „þessi dagur myndi ekki gleymast“. Hún sagði Bandaríkin ekki ætla að endurskoða ákvörðun sína um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og að færa þangað sendiráð Bandaríkjanna.
Eins og greint var frá fyrr í dag, þá greiddi yfirgnæfandi meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna gegn ákvörðun Bandaríkjanna í dag, en ályktun þess efnis, sem borin var upp af frumkvæði Egypta, var samþykkt í dag. Samtals greiddu 128 ríki með henni, 9 stóðu með Bandaríkjunum, að þeim meðtöldum, og 33 voru hlutlaus og 21 þjóð tók ekki þátt í kosningunni.
Á meðal ríkja sem samþykktu voru Bretland, Kína, Frakkland og Þýskaland, en Ísland var einnig í þeim hópi.
Referencing tomorrow's UN vote criticizing the US embassy move. In the words of the President, "Let them vote against us, we'll save a lot." pic.twitter.com/eUGWD4cCBR
— Nikki Haley (@nikkihaley) December 20, 2017
Benjamín Netanhayu, forsætisráðherra Ísraels, fordæmdi ályktunina en sagði það gleðilegt að sjá margar þjóðar standa utan við samþykkt hennar.
Haley sendi aðildarríkjum, þar á meðal Íslandi, bréf þar sem tekið var fram að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi fylgjast með því hvernig þjóðirnar myndu greiða atkvæði.
Hún hefur einnig látið hafa eftir sér, að Bandaríkin gætu ákveðið að skrúfa fyrir fjárhagsaðstoð við þróunaraðstoð í ríkjum þar sem hún er nauðsynleg.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir í samtali við RÚV að afstaða Íslands eigi ekki að koma neinum á óvart. „Það er í samræmi við þá stefnu sem við höfum – við styðjum tveggja ríkja lausn og að málefnum Jerúsalem verði fundinn farvegur með sameiginlegri ákvörðun Ísraels og Palestínumanna,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við RÚV.