Innkoma Costco á íslenskan smásölumarkað, á vordögum þessa árs, eru viðskipti ársins að mati dómnefndar Markaðarins. Önnur viðskipti sem komu til greina voru meðal annars salan á Greenqloud til hugbúnaðarrisans NetApp, en fjallað var ítarlega um þá á vef Kjarnans á dögunum, þar sem rætt var við stofnandann, Eirík S. Hrafnsson.
Costco er risi á smásölumarkaði í Bandaríkjunum, en markaðsvirði félagsins nemur um þessar mundir 81,9 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 8.600 milljörðum íslenskra króna.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en Birgir Þór Bieltvedt, fjárfestir og veitingamaður, er viðskiptamaður ársins, vegna sölunnar á Domino's á Íslandi.
Birgir, ásamt meðhluthöfum, seldi á árinu rekstur Domino’s á Íslandi (Pizza Pizza ehf.) til Domino’s Pizza Group (DPG), sérleyfishafa pitsukeðjunnar í Bretlandi.
Reksturinn var keyptur af Landsbankanum árið 2011 á 560 milljónir króna, og nam eiginfjárframlag hópsins 260 milljónum. „Sex árum seinna nam söluverðið 8,4 milljörðum króna og eigendur félagsins einnig búnir að byggja upp rekstur í Noregi og Svíþjóð. Meðlimir dómnefndarinnar bentu meðal annars á að viðsnúningur í rekstri pitsukeðjunnar hefði á þessum tíma skilað upphaflegu fjárfestunum tugföldun á fjárfestingu sinni,“ segir í umfjöllun Markaðarins.
Birgir Þór segir í viðtali við Markaðinn, að hann taki við þessum verðlaunum fyrir hönd teymis starfsmanna og hluthafa.
Félögin Eyja, í eigu Birgis Þórs og konu hans, Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, og Edda, í eigu lífeyrissjóða, og Högni Sigurðsson fjárfestir, seldu alla hluti sína í Domino’s á Íslandi með fyrrnefndum hagnaði.
Þeir sem komu á eftir Birgi Þór í kjörinu voru Gísli Hauksson, stofnandi og stjórnarformaður Gamma, og Jón Sigurðsson, fjárfestir.
Voru þeir nefndir vegna góðs árangurs Gamma á árinu, ekki síst á fasteignamarkaði, og vegna viðskipta með 8,8 prósent eignarhlut í Refresco, sem fjárfestahópur sem Jón tilheyrði, keypti af Glitni Holdco.