Unnið í skýjunum

Frumkvöðullinn Eiríkur S. Hrafnsson lifir og hrærist í síbreytilegum heimi tækninnar í skýjaþjónustu (Cloud Service). Kjarninn hitti hann á starfsstöð tæknirisans NetApp í Bellevue, í útjaðri Seattle, á dögunum.

Eiki131217
Auglýsing

Bandaríski hugbúnaðarrisinn NetApp keypti nýverið íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud en Qstack hugbúnaðurinn er helsta vara fyrirtækisins. Sagan að baki þessum viðskiptum er saga mikillar vinnu, hæfileika og þolinmæði. 

NetApp er skráð á markað í Bandaríkjunum, en umfang kaupanna, sem var nýlega gefið upp, voru rúmir 5 milljarðar íslenskra króna og er önnur stærsta sala í íslenskum hugbúnaðargeira frá upphafi á eftir sölunni á NextCode til Wuxi

Allir hluthafar Greenqloud og íslenska ríkið ekki síður högnuðust myndarlega á kaupunum.

Auglýsing

Inn í sögu Greenqloud blandast dramatískar breytingar á tækni og síðan rússíbani sem fylgir oft hinu erfiða ferli, þegar fyrirtæki eru að slíta barnskónum og feta leiðina inn á hið stóra svið alþjóðaviðskipta.

Grænt ský

Greenqloud var stofnað árið 2010 af Eiríki S. Hrafns­syni og Tryggva Lárus­syni og var fyrsta fyr­ir­tæki í heimi til þess að bjóða upp á skýja­þjón­ustu sem ein­göngu var rekin á end­ur­nýj­an­legri orku.

Nú, rúmum sjö árum síðar, er þessi grundvöllur upphaflegu hugmyndarinnar orðinn að leiðarstefi stærstu tæknifyrirtækja heimsins. „Það er merkilegt að í dag las ég að Google ætli sér loksins að reka öll sín gagnaver alfarið með endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku og gera mikið úr þeirri nýju stefnu í fjölmiðlum. Fyrir sjö árum vorum við örfá fyrirtækin í bransanum að benda á vaxandi mengun af völdum gagnavera og mikilvægi þess að þau noti endurnýjanlega orkugjafa. Google þakkaði Green Peace meðal annars fyrir aðhald að markaðnum með skýrslum um umhverfisáhrif gagnavera. Við tókum þátt í að móta þær skýrslur og var okkur margoft lýst sem fyrirmyndinni á markaðnum. Það sem við höfðum ekki var sama fjármagn, sambönd og mannskap sem þurfti til að breyta hegðun í iðnaðinum. Að því leyti þá mistókst okkur. Á hinn bóginn þá byggðum við upp flotta þjónustu en svo breyttist markaðurinn á meðan við vorum að rúlla út og reka þjónustuna okkar. Meiri áhersla varð á hybrid skýjaþjónustu og okkar viðskiptavinir fóru að biðja meira og meira um beinan aðgang að hugbúnaðinum sem við bjuggum til, til að reka okkar eigið tölvuský og keyra hann á eigin búnaði. Það var byrjunin á því að við fórum að þróa pakkavöruna Qstack sem gerir hverjum sem er kleift að setja upp eigið tölvuský sem getur tengst ytri tölvuskýjum sem áður voru samkeppnisaðilar okkar eins og Amazon Web Services (AWS), Microsoft Azure og Google Cloud Platform (GCP). Það er þó ákveðið “kick” að sjá stóru aðilana átta sig loksins,“ segir Eiríkur.

Tæknirisar heimsins, eins og Apple og Facebook, eru með viðlíka stefnu.

Mikill vöxtur

Hann er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í Woodinville, skammt frá Bellevue og Seattle, og hefur unnið að framgangi Greenqloud síðustu ár þaðan. 

Eiríkur segir að hjartað í skýjaþjónustum (Cloud Services) sé á þessu svæði, en meðal fyrirtækja sem hér hafa höfuðstöðvar eru Amazon og Microsoft, auk þess sem Alphabet (Google) er með stóra starfsstöð í nágrenninu. Á svæðinu vinna um 44 þúsund starfsmenn hjá Microsoft og 35 þúsund hjá Amazon, svo eitthvað sé nefnt.

Vöxtur þessara fyrirtækja á síðustu árum hefur haft mikil áhrif á svæðið og laðað til sín mörg nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.


Mikið vatn runnið til sjávar

Við settumst niður í glæsilegri starfsaðstöðu NetApp í Bellevue, í útjaðri Seattle, þar sem gróskumikið atvinnulíf hefur byggst upp á undanförnum árum og áratugum.

Þar eru ekki síst nýsköpunar- og tæknifyrirtæki með starfsaðstöðu, en einnig fjármálafyrirtæki og mikið um skrifstofuhúsnæði. Microsoft er áberandi á svæðinu, enda fyrirtækið með höfuðstöðvar í Redmond, sem er í nágrenni við Bellevue.

Eins og áður var nefnt keypti NetApp, sem telst til risa í hugbúnaðargeiranum, Greenqloud. NetApp er nú metið á 15,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.700 milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur tæplega tvöföldu virði íslenska hlutabréfamarkaðarins.

Starfsmenn voru tæplega 11 þúsund í lok árs í fyrra, en hefur fjölgað umtalsvert síðan. Starfsmenn á Íslandi eru rúmlega 40 og hefur fyrirtækið verið að auglýsa eftir starfsfólki að undanförnu. Aðal­­eig­endur fyr­ir­tæk­is­ins voru fyrir kaupin meðal ann­ars Kjölur fjár­fest­ingar­fé­lag, Nýsköp­un­­ar­­sjóður Atvinnulífssins og Omega ásamt smærri fjár­­­fest­u­m, ­stofn­endum og starfs­­fólki.

Traustið og innkoma Jónsa

Eiríkur segir að þegar hugsað sé til baka, þá sé það traustið frá hluthöfunum sem hafi skipt einna mestu máli. „Þegar upp er staðið er það traust frá fjárfestum sem hefur skipt okkur öllu máli. Á svona vegferð eru ótal hindranir sem þarf að yfirstíga, og það var svo sannarlega þannig í okkar tilviki. En tiltrú fjárfestana er það sem ýtir okkur í þann farveg að fara í útrás, sem að lokum leiddi til samstarfs við NetApp.“ segir Eiríkur.

Jón Þ. Stefánsson, framkvæmdastjóri. Eiríkur segir innkomu hans hjá Greenqloud hafa skipt sköpum fyrir verkefnið og stækkunina, sem lokum leiddi til þess að NetApp keypti fyrirtækið.

Í aðdraganda þess að Greenqloud komst á radarinn hjá stóru tæknifyrirtækjunum - og NetApp þar á meðal - þurfti að eyða miklu púðri í markaðs- og sölustarf. Margra ára vinna við að bæta tækni fyrirtækisins, hugbúnað og þjónustu, fólst ekki síst í því að starfa náið með fyrirtækjum sem voru viðskiptavinir fyrirtækisins. Eiríkur nefnir meðal annars að samstarf við Decode, NextCODE, Advania, CCP, svo einhver séu nefnd, hafi gert Greenqloud mögulegt að framþróa starfsemina á heimamarkaði við ólíkar aðstæður og lausnir. „Þetta samstarf skipti miklu máli fyrir okkur. Það skiptir augljóslega miklu máli að vera með trausta viðskiptavini og samstarfsaðila þegar hugbúnaðarfyrirtæki eru að framþróa vörur og þjónustu auk þess sem hver sala, sérstaklega þær sem má tala um, hefur domino áhrif - startup bransinn er óttalegt ‘catch-22’ þangað til þú ert búinn að afla þér trausts,“ segir Eiríkur. Eftir því sem tíminn leið, ráðstefnuferðum fjölgaði og meiri reynsla komst á sölu- og markaðsstarf, þá opnuðust fleiri dyr.

Að sögn Eiríks urðu svo vatnaskil í sögu Greenqloud þegar Jón Þorgrímur Stefánsson, oftast kallaður Jónsi, tók við sem forstjóri í mars 2014 en hann hafði mikla reynslu af því að stjórna teymi hjá Opera Software í Noregi í gegnum gríðarlegan vöxt á heimsvísu sem kom sér vel fyrir Greenqloud. Þá færðist áhersla fyrirtækisins alfarið yfir á þróun Qstack hugbúnaðarins. „Með þessari áherslubreytingu færðist okkar „fókus“ á það sem skipti viðskiptavini okkar mestu máli ásamt því að fá fjárfestana til að takast á við stórar breytingar á fyrirtækinu sem fylgdu. Við lögðum niður tölvuskýið “Greenqloud” stuttu síðar, buðum viðskiptavinum að færa sig á einfaldan hátt í tölvuský Advania (byggt á Qstack og íslenskum gagnaverum) og urðum alfarið að hugbúnarfyrirtæki í stað hugbúnaðar og hýsingarfyrirtækis. Þjónusta við viðskiptavini varð betri og vöruþróunin líka. Þetta myndi kallast “pivot” á startup máli sem er eitthvað sem góð fyrirtæki gera þegar markaðurinn breytist.

Áður en við urðum hluti af NetApp voru aðrir aðilar sem vildu kaupa okkur, og því fylgir mikill rússíbani, eins og gengur. En það sem skipti máli var að okkur tókst að halda fókus og vinna áfram þétt með okkar viðskiptavinum og halda áfram að finna upp og aðlaga að nýrri tækni sem var það sem þurfti til að ná lengra með okkar vöru.“

Þetta leiddi að lokum til samtala við rétta fólkið, á réttum tíma.

Litlu munaði þó að ekkert yrði af frekara samstarfi við NetApp. Eftir sex mánaða samstarf við NetApp 2015-2016 var næstum öllum sagt upp hjá NetApp sem höfðu verið í samskiptum við Greenqloud, og var vinna með Qstack hugbúnaðinn sett á ís. Þetta setti ferlið á byrjunarreit aftur, ef svo má segja. „Við vorum öll að vinna í því að efla okkar sölunet og samband við fólk sem skipti máli. Það er eitt af því sem maður hefur lært af þessu ferli; stanslaus vinna við að efla tengingar og viða að sér reynslu sem gæti nýst við að selja í framtíðinni er það sem skiptir alveg óskaplega miklu máli. “

„Þetta var stolt stund í skugga hræðilegs atburðar. Fréttastofur allstaðar að voru enn verið að hringja í okkur Íslendingana sem urðum vitni af skotárásinni á Mandalay Bay þegar Qstack var kynnt sem nýjasta vara NetApp með nýtt nafn (NetApp Cloud Orchestrator) fyrir framan mörg þúsund manns á Insight ráðstefnunni í Las Vegas. Það var súrrealiskt að sitja í salnum og horfa á yfirmenn frá Microsoft og NetApp ræða vöruna okkar og nýja sameiginlega þjónustu sem uppskar mikið lófaklapp. Hlutabréf NetApp hækkuðu í kjölfarið sem er gaman að ímynda sér að hafi að einhverju leyti verið GreenQloud teyminu að þakka.”

En nýtt teymi sannfærðist um að Qstack hugbúnaðurinn væri það sem NetApp þyrfti. „Við vorum búin að sýna fram á að það að hugbúnaðurinn hentaði einkakúnnum jafnt og hýsingaraðilum auk þess hversu hratt og vel við gátum aðlagast nýjustu tækni,“ segir Eiríkur, og leggur áherslu á að í þessum samtölum hafi skipt miklu máli að þekkja tæknina afar vel - helst betur en allir aðrir - og geta þannig fundið lausnirnar á vandamálunum sem viðskiptavinir eru að glíma við.

Þróunin sé sú í þessum anga hugbúnaðar- og tæknigeirans, að hinir stóru séu sífellt að verða stærri, og því skipti afar miklu máli að vera með hugbúnað sem þoli að þjónusta marga vel, og búi yfir þeim sveigjanleika sem þarfir viðskiptavina kalla fram. „Við fengum séns á að sanna okkur á fáránlega stuttum tíma og gerðum það - enda með sterkt teymi og vöru sem slípaðist til með alvöru kúnnum.“

Þannig hafi það einnig verið raunin með einn stærsta viðskiptavininn, UBS bankann, sem hafi einfaldlega fundið þá lausn í Qstack hugbúnaðinum og teyminu sem skipti máli fyrir fyrirtækið. 

Þörf á miklu átaki í sölu- og markaðsstarfi

Eftir sjö ára uppbyggingu og þrotlausa vinnu hefur Greenqloud fundið nýtt hlutverk með Qstack hugbúnaðinum innan NetApp, og segist Eiríkur bjartsýnn á framhaldið. Nýlega - á ráðstefnu í Las Vegas sem fjallað er um hér í myndtexta - hafi verið sýnt á spilin í samstarfi NetApp og Microsoft. „Þetta er afar stór áfangi fyrir okkur og sýnir hvað NetApp var mikil alvara með kaupunum,“ segir Eiríkur.

En hvað er það sem helst vantar þegar kemur að íslenska nýsköpunarumhverfinu?

Eiríkur segir að stuðningur og fjárfesting í sprotum megi í raun alltaf vera meiri. Það hafi t.d. sýnt sig að fjárfestingar Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í hinum ýmsu verkefnum hafi borgað sig margfalt. Saga Greenqloud sé gott dæmi um það en báðir sjóðir lögðu til fjármagn snemma í ferli Greenqloud auk þess sem Greenqloud þáði endurgreiðslur af þróunarstarfi félagsins sem ásamt sölunni og áralangri starfsemi hafa nú skapað ríkinu milljarða í tekjur. „En þegar kemur að sölu- og markaðsmálum þá erum við langt á eftir flestum öðrum,“ segir Eiríkur. „Þá á ég við í stuðningi við þau mál einfaldlega vegna þess að við búum á eyju og höfum ekki margra áratuga reynslu af alþjóðlegum sölumálum eins og fólk í öðrum löndum eða fjármagnið í litlum sprotafyrirtækjum til að „yfirstíga hafið“ eins og þarf að gera ,“ segir Eiríkur.


Hann segir nauðsynlegt að stórefla fjárfestingasjóði hins opinbera og annarra þeirra sem styðja við sprota og frumkvöðlastarfsemi, í sölu- og markaðsstarfi ekki síður en við tækniþróun.

Fundarherbergin í starfsstöð NetApp í Belleveu heita eftir hljómsveitarnöfnum frá Seattle. Viðtalið var tekið í Soundgarden herberginu.Vel megi hugsa sér að setja upp sérstakan sjóð, svipaðan og Tækniþróunarsjóð, sem einblínir meira á þennan hluta starfseminnar. „Þetta skiptir það miklu máli að ég tel að það þurfi að fjárfesta miklu meira í þessu, og þá samhliða fjárfestingum í sprotastarfseminni sjálfri. Impra á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er með innviðina að ég tel til að sinna úthlutun á slíkum sjóði nú þegar. En styrkir Impru til markaðsmála sprotafyrirtækja eru ekki einusinni dropi í hafið. Það er grátlegt því hugsunin þar er rétt. Þetta er í raun hluti af henni og til að byggja upp þekkingu þá þarf að vera langtímahugsun að baki stuðningnum í upphafi,“ segir Eiríkur.

Þá nefnir hann einnig að Ísland geti ekki verið eyland þegar komi að alþjóðlegum hluta viðskiptalífsins. „Ég lít svo á að það sé nauðsynlegt að íslensk hugbúnaðar- og sprotafyrirtæki búi við regluverk sem sé fyrir hendi á alþjóðlegum mörkuðum, eins og í Bandaríkjunum og Evrópu. Ég get nefnt kaupréttarkerfi sem tíðkast í hugbúnaðargeiranum í því samhengi, og hvernig hvatar til að gera betur og ná lengra eru útfærðir. Við erum ekki að huga nægilega vel að þessu á Íslandi. Kaupréttarsamningar eru ekki bara fyrir útrásarvíkinga - venjulegt fólk leggur allt sitt að veði til að hjálpa sprotafyrirtækinu sínu að ná árangri og sættir sig við lægri kjör með von um ágóða að lokum. Þetta gerir sprotafyrirtækjum kleift að keppa um besta fólkið við stóru fyrirtækin. Í dag er fólki refsað fyrir kaupréttinn sinn í formi tekjuskatts í stað fjármagnstekjuskatts. Þessu væri einfalt að breyta og það er mikilvægt að löggjafinn átti sig á því að við erum að keppast um starfsfólk á alþjóðlegum grundvelli.

Margt gott hefur þó verið gert fyrir sprota á Íslandi eins og endurgreiðslur vegna þróunarkostnaðar. Það kerfi er líklega stór ástæða fyrir því að ekki fleiri sprotar hafa flutt starfsemi sína til annarra landa sem bjóða upp á svipaðar en hærri endurgreiðslur. Við viljum auðvitað öll geta sinnt okkar draumaverkefnum á Íslandi.“

Viðtalið birtist einnig í Mannlífi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal