Í þá tíð… Dauði fjölmiðlamógúlsins

Blaðaútgefandinn Robert Maxwell var einn fyrirferðarmesti útgefandi Bretlands um árabil. Hann fór með himinskautum á hátindi veldis síns, en fallið var hátt og endalokin voveifleg.

Maxwell101217
Auglýsing

Eigendur fjölmiðla hafa oft haft lag á því að verða frægir af endemum og jafnvel orðið frægðarmenni af svipuðu stigi og þeir sem eru til umfjöllunar í þeirra eigin miðlum. Dæmin eru allmörg, allt frá dögum William Randolph Hearst sem var stærsti og valdamesti útgefandi í Bandaríkjunum í meira en hálfa öld, sitthvoru megin við aldamótin 1900.

Hann nýtti sér miðla sína miskunnarlaust í persónulegu framapoti og hagsmunagæslu og var einn af frumkvöðlum „Gulu pressunnar“ þar sem hann hikaði ekki við að láta blöð sín birta skáldaðar fréttir og viðtöl ef það hentaði honum.

Sá maður sem kemst hvað næst Hearst í nútímanum er auðvitað Ástralinn Rupert Murdoch, sem hefur setið á valdastóli hjá Sun, News of the World og Fox News, svo fátt eitt sé nefnt. Færri muna sennilega eftir einum af helstu keppninautum Murdochs á sínum tíma, manni að nafni Robert Maxwell, sem var eins konar holdtekja oflætis, drambs, yfirgangs og skefjalauss metnaðar í breska fjölmiðlabransanum á níunda áratug síðustu aldar.

Auglýsing

Úr fátækt til frama

Robert Maxwell var einn af risunum í fjölmiðlabransanum í Bretlandi á níunda áratugnum. Hann reis hátt og hratt, en hrunið var líka hratt.Það verður seint sagt að Robert Maxwell hafi fetað troðnar slóðir í sínu lífi. Hann fæddist í litlu þorpi í tékknesku Karpatafjöllum árið 1923 (svæðið var síðar fært undir Ungverjaland og er nú innan landamæra Úkraínu), einn af sjö börnum bláfátækra hjóna sem voru bókstafstrúaðir gyðingar. Sjálfur sagði Maxwell, sem var gefið nafnið Ján Ludvík Hyman Binyamin Hoch, að hann hafi ekki eignast skó fyrr en hann var sjö ára gamall.

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar var Ungverjaland undir áhrifavaldi Þýskalands nasista og varð þar skiljanlega erfið tilvera fyrir gyðinga. Þannig fór að Maxwell slapp úr landi árið 1940 en nær gervöll fjölskylda hans lét lífið í Auschwitz útrýmingarbúðum nasista. Hann gekk til liðs við útlagaher Tékka sem barðist með bandamönnum, en færði sig yfir í breska herinn árið 1943 og var sæmdur viðurkenningum fyrir frammistöðu sína í stríðinu.

Fljótlega eftir stríðslok hóf Maxwell feril sinn í útgáfubransanum. Fyrst einbeitti hann sér að útgáfu ýmissa fræðibóka og fagtímarita en reksturinn vatt fljótt upp á sig og hann varð fljótt málsmetandi útgefandi dagblaða og virkur þátttakandi í stjórnmálum. Hann var kosinn á þing fyrir Verkamannaflokkinn árið 1964 og sat þar til ársins 1970. Strax á þeim árum hafði hann það orðspor að vera erfiður í samskiptum, og hann hikaði ekki við að fara dómstólaleiðina gegn hverjum þeim sem gagnrýndi hann eða setti sig upp á móti honum.

Rétt áður en hann féll af þingi, hafði hann reynt að selja hlut í fyrirtæki sínu Pergamon, en rétt áður en viðskiptin gengu í gegn hætti kaupandinn við eftir að í ljós kom að stór hluti hagnaðar Pergamon var tilkominn vegna gerninga sem tengdust öðrum fyrirtækjum Maxwells og fjölskyldu.

Hann missti tökin á Pergamon um nokkurra ára skeið en kom sér aftur inn árið 1974. Næstu árin hélt Maxwell sínu striki og eignaðist árið 1980 stærsta prentfyrirtæki Bretlands British Printing Corporation.

Maxwell hafði lengi ætlað sér að eignast eitt af stóru dagblöðunum í Bretlandi. Hann gerði meðal annars tilboð í News of the World árið 1969, en ungur fjölmiðlamaður frá Ástralíu, Rupert Murdoch, skaut honum ref fyrir rass með kaupum á blaðinu og með kaupunum á Sun skömmu síðar náði hann fótfestu á Fleet Street (sem er samnefnari fyrir blaðabransann í London) sem enn sér ekki fyrir endann á. Síðar kom í ljós að eigendur NOTW höfðu engan áhuga á að selja tékkneskum innflytjanda blaðið.

Maxwell var kjörinn á þing fyrir Verkamannaflokkinn þar sem hann sat árin 1964 til 1970.

Draumur Maxwells rættist svo loks árið 1984 þegar hann keypti Mirror Group Newspapers og með því Daily Mirror, Sunday Mirror og fleiri blöð. Hann breytti þegar í stað um stefnu og hóf að líkja eftir efnistökum Sun sem hafði tekið fram úr Daily Mirror í sölu nokkru áður. Léttklæddar konur prýddu síður blaðsins, sem og ýmsir leikir þar sem vinningshafar áttu að geta unnið milljón pund. Starfsmenn hafa síðar upplýst að leikirnir voru svindl frá upphafi; Maxwell tryggði að enginn myndi nokkru sinni vinna verðlaunin.

Fljótlega eftir kaupin réði Maxwell nýjan ritstjóra á Daily Mirror, Roy Greenslade, sem hafði verið lengi í bransanum og séð þar eitt og annað. Hann áleit að hann gæti unnið með Maxwell, en það var rangt.

„Þetta var alveg ómögulegt. Hann skipti sé af öllu á öllum stigum. Ef ég tók mér til dæmis frí einn daginn, þá var hann búinn að reka einhvern þegar ég kom til baka og þá þurfti ég að ráða viðkomandi aftur.“

Maxwell var mikill vexti og hrikalegur yfirgangsseggur sem virti tilfinningar starfsfólks lítils, en gætti þess þó að vera stimamjúkur í samskiptum ef það þjónaði hans hagsmunum. Eins ákveðinn og fyrirferðarmikill og Maxwell var, kunnu sumir undirmanna á honum lagið og sagði einn til dæmis að ef stjórinn bað hann um nákvæma skýrslu um eitthvað mál fyrir næstu viku, var næsta víst að hann myndi gleyma því jafnóðum og aldrei minnast á hana aftur. Þá átti hann það til, ef honum leiddist um helgar, að boða til fundar á skrifstofu sinni en mundi svo ekki hvert tilefnið var þegar fólk mætti.

Maxwell lifði hátt á þessum árum. Hann skondraðist um allan heim í einkaþotum og barst mikið á og fjárfesti grimmt í fyrirtækjum. Þegar mest lét voru um 400 fyrirtæki undir hans stjórn, en það voru kaup á bandaríska útgáfurisanum Macmillan Publishers árið 1988 sem áttu eftir að koma honum í koll.

Kaupin sliguðu Maxwell samsteypuna sem safnaði skuldum á ógnarhraða, en á meðan hélt Maxwell áfram að víkka út veldi sitt. Meðal annars keypti hann slúðurblaðið New York Daily News og stofnaði blaðið The European árið 1990, sem átti að gefa út um alla Evrópu.

Skemmst frá að segja fjaraði fljótt undan Maxwell á þessum tíma. Árið 1991 var svo allt komið í strand og óráðsían var að komast upp á yfirborðið. Fréttaflutningur af slæmri stöðu Maxwells sem gekk allt sumarið, þyngdist enn um haustið. Panorama á BBC og Financial Times sýndu fram á ýmsar vafasamar aðgerðir og millifærslur innan samsteypunnar og vörpuðu fram spurningum um hvort hann gæti staðið undir skuldahalanum sem hafði safnast upp.

Það var um þetta leyti sem Maxwell lagði upp í ferðalag á snekkjunni sinni. Hann sigldi, aleinn ásamt áhöfn, frá Gíbraltar til Madeira og þaðan til Kanarí-eyja. Allan tímann sem á ferðinni stóð bárust honum skilaboð með faxi um sífellt versnandi stöðu fyrirtækisins sem var talið skulda um tvo milljarða punda.

Maxwell mætti örlögum sínum á snekkju sinni þegar ljóst var að endalok viðskiptaveldis hans blöstu við.

Hinn 4. nóvember skipaði hann skipstjóranum að leggja úr höfn. Áhöfnin heyrði síðast frá honum á fimmta tímanum um nóttina en um morguninn sást ekkert til hans um borð. Leitar- og björgunaraðgerðir fóru strax í gang og þyrlusveit fann lík hans fljótandi í hafinu.

Atburðarásin er engum kunn, og sérfræðingar sem kallaðir voru til, gátu ekki skorið með vissu úr um dánarorsök, en úrskurður yfirvalda var að hjartaáfall og drukknun hafi orðið honum að aldurtila. Hann var 68 ára að aldri og hafði lengi átt við hjarta- og lungnasjúkdóma að etja.

Þrátt fyrir þetta eru margir sannfærðir um að Maxwell hafi stytt sér aldur með því að kasta sér fyrir borð.

Stal lífeyrispeningum starfsmanna

Það var ekki fyrr en eftir að Maxwell var látinn sem raunveruleg staða fyrirtækisins varð lýðnum ljós. Varla stóð þar steinn yfir steini, en það alvarlegasta var að hann hafði notað lífeyrissjóði starfsfólks til að greiða skuldir fyrirtækisins. Alls vantaði um 440 milljónir punda, sem setti afkomu rúmlega 30.000 starfsmanna í mikla óvissu.

Eftir nokkurra ára málarekstur fékkst obbinn af þeim fjármunum sem teknir höfðu verið úr lífeyrissjóðunum til baka með dómsátt. Meðal annars þurfti breska ríkið að punga út 100 milljónum punda en restin kom frá þeim fyrirtækjum sem eftir voru, endurskoðendastofum og fjárfestingabönkum.

Saga Maxwells er stórmerkileg og í þessari grein hef ég hvorki minnst á umdeild samskipti hans og stuðning við Ísrael og hina ýmsu harðstjóra austantjaldsríkja á sínum tíma né afskipti af knattspyrnuliðum.

Til er frasi á ensku til að lýsa fólki sem ber mikið á – „Larger than Life“ – og vissulega átti Maxwell sitt fólk, en eftir þennan merkilega feril eru eftirmælin almennt ekki um neitt stórmenni, heldur lítinn karl í stórum skrokki sem gekk fram með ofríki og stal peningum af eigin starfsfólki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÍ þá tíð...