365 miðlar hf. og Logi Bergmann Eiðsson hafa komist að samkomulagi vegna starfsloka Loga sem felur m.a. í sér að hann hefji hefðbundin útvarpsstörf þann 1. mars 2018 og hefðbundin sjónvarpsstörf þann 1. maí 2018.
Þetta kemur fram í frétt mbl.
Árvakur hf. og Fjarskipti hf. hafa samþykkt samkomulag þetta fyrir sitt leyti, segir í fréttinni, en þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá aðilum dómsmáls um lyktir máls.
Kjarninn fjallaði um málið í október þegar málið kom upp en þá mátti Logi ekki hefja störf hjá Árvakri og Símanum líkt og hann hafði tilkynnt um að til stæði. Fyrrverandi vinnuveitandi hans, 365 miðlar, höfðu fengið lögbann á störf Loga hjá þessum aðilum sem gildir til 31. október 2018. 365 höfðaði í framhaldinu staðfestingarmál á hendur Loga Bergmanni.
Greint var frá því í byrjun október síðastliðinn að útvarpsstöðin K100, sem er í eigu Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, hefði náð samningum við Loga Bergmann Eiðsson um dagskrárgerð á stöðinni, auk þess sem hann mun starfa á ritstjórn Morgunblaðsins.
Á sama tíma var greint frá því að í undirbúningi sé framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni og dagskrárgerð með Loga Bergmanni, sem unnin verður í samvinnu Árvakurs og Sjónvarps Símans. Ráðning Loga átti að taka gildi strax.
Í frétt Vísis frá 18. október segir hins vegar að í ráðningasamningi Loga sé kveðið á um 12 mánaða uppsagnarfrest og 12 mánaða samkeppnisbann að honum loknum. „365 var því nauðugur sá kostur að krefjast þess hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að lögbann yrði lagt á störf Loga Bergmanns hjá þessum aðilum. Af tillitsemi við Loga var krafa 365 sú að lögbanninu yrði afmarkaður tími til næstu 12 mánaða í stað 24 mánaða, eins og 365 hefði getað gert kröfu um á grundvelli starfssamnings Loga Bergmanns.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú fallist á kröfu 365 og sett lögbann á störf Loga Bergmanns hjá Árvakri og Símanum til 31. október 2018. 365 mun í framhaldinu höfða staðfestingarmál á hendur Loga Bergmanni, eins og lög gera ráð fyrir.“