Eiríkur Jónsson lagaprófessor við Háskóla Íslands, hefur krafið íslenska ríkið um bætur vegna ólögmætra athafna Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þegar hún skipaði dómara í Landsrétt. Eiríkur var einn þeirra fjögurra sem dómnefnd hafði talið á meðal 15 hæfustu til að starfa í réttinum en Sigríður vék til hliðar. Raunar hafði dómnefndin metið Eirík sjöunda hæfasta umsækjandann, en hann var samt látinn víkja af lista dómsmálaráðherra.
Tveir mannanna stefndu ríkinu vegna málsins og í niðurstöðu Hæstaréttar, sem lá fyrir fyrr í þessum mánuði, kom fram að Sigríður hefði brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga með ákvörðun sinni. Hinir tveir mennirnir hafa nú krafið ríkið um bætur vegna þessa.
Í frétt á vef RÚV kemur fram að Eiríkur setji ekki fram neina fjárhæð í kröfunni sem hann gerir. Krafan hafi verið send ríkislögmanni í gær. Eiríkur er, líkt og áður sagði, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann er fæddur árið 1977 og er því fertugur að aldri. Eiríkur á því um 27 ár eftir á vinnumarkaði miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félags prófessora ætti Eiríkur að vera með á bilinu 659.683 til 727.572 krónur í mánaðarlaun.
Það er um einni milljón króna frá þeim mánaðarlaunum sem hann hefði haft sem dómari við Landsrétt.
Ráðherra braut lög
Ástráður Haraldsson og gerði Jóhannes Rúnar Jóhannsson stefndu ríkinu í kjölfar þess að þeir voru ekki skipaðir dómarar við Landsrétt.
19. desember komst Hæstiréttur síðan líka að því að Sigríður hafi brotið gegn ákvæði stjórnsýslulaga. Dómstóllinn tók afdráttarlausa efnislega afstöðu til málsins. Ef dómsmálaráðherra ætlar að víkja frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis verður slík ákvörðun að vera reist á frekari rannsókn ráðherra, líkt og kveðið er á um í stjórnsýslulögum. Í dómi Hæstaréttar segir að það liggi ekki fyrir að Sigríður hafi ráðist í frekari rannsókn á þeim atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem málið snérist um og rökstuðningur hennar til forseta Alþingis, sem settur var fram í bréfi dagsett 28. maí 2017, um að víkja frá niðurstöðu dómnefndar fullnægði ekki lágmarkskröfum.
Í dómnum var fallist á miskabótakröfur Ástráðs og Jóhannesar Rúnars. Þeir fá 700 þúsund krónur hvor vegna skipunar dómara við Landsrétt. Hæstiréttur sýknaði hins vegar ríkið af skaðabótakröfu og hafði áður vísað frá ógildingarkröfur Ástráðs og Jóhannesar Rúnars, sem laut að ógildingu þeirrar ákvörðunar dómsmálaráðherra að leggja ekki til við Alþingi að þeir yrðu skipaðir í embætti dómara við Landsrétt.
Ástæða þess að Hæstiréttur féllst ekki á skaðabótakröfu þeirra var sú að þeir gátu ekki sýnt fram á fjárhagslegt tjón, enda báðir vel launaðir lögmenn. Það geta hins vegar hinir tveir sem ekki hlutu náð fyrir augum Sigríðar gert. Jón Höskuldsson hefur þegar stefnt íslenska ríkinu og krefst þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krefst þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Ljóst er að krafa Jóns hleypur á tugum milljóna króna. Landsréttardómarar fá 1,7 milljónir króna í laun á mánuði en héraðsdómarar 1,3 milljónir króna. Bara launamunurinn er því um 280 þúsund á mánuði, eða yfir 30 milljónir króna á níu árum.
Eiríkur á mun hærri kröfu en Jón, líkt og áður var rakið.