Arion banki var með mestu hlutdeild kauphallaðaðila á aðalmarkaði kauphallarinnar á árinu 2017, eða 24,3 prósent. Landsbankinn kom þar á eftir með rúmega 20 prósent og Fossar markaðir voru með 14,7 prósent.
Ef litið er eingöngu til hlutabréfaviðskipta sem eiga sér stað við pörun tilboða í tilboðabókum (pöruð viðskipti) er Arion banki einnig með mestu hlutdeildina, 27,8 prósent, Landsbankinn með þá næst mestu, 22,6 prósent og Íslandsbanki í þriðja sæti með 18,7 prósent hlutdeild, að því er fram kemur í samantekt Nasdaq.
Á skuldabréfamarkaði var Landsbankinn með mestu hlutdeildina, 17,9 prósent, Íslandsbanki fylgdi í kjölfarið með 17,1 prósent og Arion banki var með þriðju hæstu hlutdeildina, 16,5 prósent (sjá myndir í viðhengi fyrir hlutdeild allra kauphallaraðila).
Kvika banki er með mestu hlutdeildina í pöruðum skuldabréfaviðskiptum, 25,8 prósent, þá kemur Íslandsbanki með 22,6 prósent og Arion banki þar næst með 22,1 prósent hlutdeild.
Umsvif á hlutabréfamarkaði jukust umtalsvert á síðasta ári, eða um 13 prósent miðað við árið á undan. Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 632 milljörðum eða rúmlega 2,5 milljörðum króna á dag. Heildarviðskipti námu 559 milljörðum árið 2016.
Mest voru viðskipti með bréf Marel (MARL) 114,5 milljarðar, Icelandair Group (ICEAIR) 75,9 milljarðar, Símans (SIMINN) 59,3 milljarðar, Reita fasteignafélags 55,6 milljarðar og Haga (HAGA) 51,6 milljarðar.
Á Aðalmarkaði hækkaði verð bréfa HB Granda mest eða um 35 prósent á árinu og næst verð bréfa Fjarskipta (Vodafone) um 39 prósent. Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Iceland Seafood International mest eða um 31 prósent.
Félögin á aðalmarkaði eru nú 16 talsins, en Össur fór af íslenska markaðnum í desember og eru bréf félagsins eingöngu í viðskiptum á markaðnum í Kaupmannahöfn.
Vísitalan markaðarins lækkaði um fjögur prósent í fyrra, en markaðurinn skipist svo til í tvö hólf, þar sem um helmingur félaga lækkaði töluvert en hinn hækkaði.
Marel er langsamlega verðmætasta félagið í kauphöllinni, en markaðsvirði þess nemur um 224 milljörðum króna. Markaðsvirði skráðra félaga var um 820 milljarðar í lok árs, en það er um 17 prósent minna en í lok árs 2016. Munar þar ekki síst um brotthvarf Össurar af markaðnum. Gengi bréfa HB Granda hækkaði mest á árinu 2017, eða um 34,6 prósent, og gengi bréfa Icelandair lækkaði mest, eða um 36,3 prósent.