Langtímamarkmið ON er að rafmagnsbíllinn verði fyrsta val fólks. Þetta segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann segir ábyrgðaleysi af fjölskyldum sem reka tvo bíla að hafa annan bílinn ekki rafmagnsbíl.
ON stefnir á að opna fjórar nýjar hleðslustöðvar, eða hlöður, á næstu mánuðum sem mun gera það að verkum að hægt verður að keyra hringveginn á rafmagnsbílum. Alls voru ellefu nýjar hlöður settar upp 2017 og stefnt er á svipað magn árið 2018. Að opna hringveginn er eitt skref í gera rafmagnsbílinn fýsilegan kost fyrir alla.
40% ódýrara að nota rafmagnsbíl
1 febrúar n.k. verður tekið upp gjald á hraðhleðslustöðvum landsins. Þá mun kosta 39 kr á mínútu að hlaða bílinn, eða um 400 - 600 krónur fyrir algenga notkun. Hingað til hefur þjónustan verið ókeypis en kostnaðurinn miðast við spár um notkun rafbíla í framtíðinni. Eins og er er notkun hleðslustöðvanna heldur ófyrirsjáanleg en það er draumurinn að geta lækkað verðið með aukinni notkun hlaðanna, segir Bjarni.
Bjarni nefnir að þó rukkað sé fyrir mínútuna sé það enn töluvert ódýrara en að reka bensínbíl. Að keyra 50.000km á WV Golf bensínbíl kostar um 800.000 krónur auk um 200.000 krónur í smurningu og viðhald.
Sama vegalengd á rafmagnsbíl sem eingöngu er hlaðinn á hraðhleðslustöðvum kostar um 600.000 krónur eða 40% minna.
Bjarni bendir á að það þurfi að hugsa um hraðhleðslustöðvar eins og leigubíl. Þjónustu sem er í boði en þó ávallt betra að nota ódýru leiðina, sem er að hlaða bílinn heima hjá sér og í vinnunni.
Nýtt app á leiðinni
Nýtt og notendavænna app er í bígerð hja ON og felst bætingin á appinu í því að geta þjónustað viðskiptavini betur. Bjarni segir að helstu truflanir á stöðvunum sé að þær eru að slá út, þá helst vegna þess að fólk kann ekki nógu vel á þær. Þá verði hægt að senda mynd í gegn um appið og fá nákvæma leiðsögn. Einnig verður hægt að fara inn á mínar síður þar sem m.a. er hægt að skoða greiðsluyfirlit.
Mismunandi bílar taka mismunandi hleðslutæki og hægt er að sía út upplýsingar fyrir hvern og einn notenda.