Trond Giske, varaformaður norska Verkamannaflokksins, hefur sagt af sér vegna ásakana um kynferðislega áreitni gegn konum.
Mikill þrýstingur hefur verið á hann að segja af sér frá því málið komst upp í desember síðastliðnum. Nokkrar konur stigu fram og greindu frá áreitinu en ekki liggur fyrir hversu margar þær eru eða hvers eðlis brotin eru.
Jonas Gahr Stoere, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir í yfirlýsingu vegna málsins að vegna krefjandi aðstæðna flokksins og eðli málsins samkvæmt þá hafi hann og Giske tekið þá ákvörðun í sameiningu að hann myndi stíga til hliðar sem varaformaður flokksins um óákveðinn tíma. Til stendur hjá Verkamannaflokknum að funda vegna málsins í dag.
Giske hefur verið í veikindaleyfi síðan málið kom upp fyrir jól.
Baðst afsökunar
Giske vísaði fullyrðingum kvennanna á bug fyrst um sinn en baðst þó afsökunar á hegðun sinni síðastliðinn fimmtudag. „Ég held að ég þurfi að viðurkenna það að ég hafi ekki verið nægilega tillitssamur gagnvart konum. Það á við þegar um aðstöðu- eða aldursmun er að ræða eða í félagslegum aðstæðum þar sem áfengi er við hönd,“ sagði hann í sjónvarpsþætti á stöðinni NRK í Noregi.
Í viðtalinu sagði hann hegðunina óviðeigandi eða óþægilega. Hann sagði að hann yrði að taka ábyrgð á henni og að þetta væri engum nema honum sjálfum að kenna. Hann væri í miklu uppnámi vegna málsins. Hann sagðist jafnframt ekki muna eftir þessum sérstöku tilfellum en þó reka minni til þeirra aðstæðna sem lýst er.
Sinnuleysi gagnrýnt
Nokkur gagnrýni hefur verið á forystu flokksins vegna málsins fyrir að aðhafast lítið en Line Oma var fyrsti meðlimur flokksins til að krefjast þess að Giske myndi segja af sér. Hún gagnrýndi þögnina í flokknum og sagðist vera orðin þreytt á tali um skrifræði, valdabrölti og klíka innan flokksins.
Henni finnst það skýrt að ekki væri hægt að hafa mann í forystu flokksins sem hagar sér með þessum hætti. Ekki væri hægt að látast ekki sjá fílinn í herberginu.