Veiðigjöld á lítil og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi verða lækkuð samhliða endurskoðun á veiðigjöldunum á þessu ári.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, og er vísað til þess að ríkisstjórnarflokkarnir Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi komið sér saman um þetta líkt og orðalag í stjórnarsáttmála ber með sér. „Við erum að horfa til litlu og meðalstóru fyrirtækjanna sem eru ekki að ráða við þá miklu hækkun sem varð á veiðigjaldinu 1. september á síðasta ári,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, í umfjöllun um veiðigjöldin og áformaða lækkun þeirra í Morgunblaðinu í dag.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir í samtali við Morgunblaðið að veiðigjöldin séu orðin alltof há. „Við erum að áætla að árið 2018, miðað við óbreytt veiðigjald eins og fjárlög fóru í gegnum þingið, verði skattur 58 til 60 prósent af hagnaði,“ segir Heiðrún Lind. „Þetta verður hátekjuskattur á sterum þetta árið og gjaldtakan er komin langt fram úr hófi. Hún verður beinlínis skaðleg sjávarútvegi og þar með samfélaginu öllu.“
Óhætt er að segja að undanfarin ár hafi verið sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu að mörgu leyti hagfelld, einkum þeim stærstu.
Þannig hagnaðist sjávarútvegurinn um nálægt 300 milljörðum króna á árunum 2009 til 2016. Helmingur þess hagnaðar féll til á síðustu þremur árunum á fyrrnefndu tímabili.
Á þessu tímabili lækkuðu skuldir atvinnuvegarins sömuleiðils um samtals 161 milljarð króna, og stóðu í 333 milljörðum króna um áramótin 2015/2016. Síðan hefur þróunin verið áfram í sömu átt, en sterkara gengi krónunnar hefur þó gert mörgum fyrirtækjum, einkum þeim sem minni eru, erfiðara um vik í rekstrinum.
Hæstu veiðigjöldin greiddi sjávarútvegurinn vegna fiskveiðiársins 2012/2013, enþá greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda. Árin þar á eftir lækkuðu gjöldin skref fyrir skref niður í 4,8 milljarða árið 2016.