Góð samskipti hafa valið 40 eftirtektarverðustu stjórnendur landsins 40 ára og yngri.
Athygli vekur að meðalaldur íslenskra stjórnenda hefur farið hækkandi. Eitt af því sem kom í ljós þegar leitað var eftir tilnefningum á listann er að leið fólks í æðstu stjórnendastöður á Íslandi virðist hafa verið að lengjast á síðustu árum.
Þeir sem lögðu til tilnefningar á listann voru sammála um að áberandi færri 40 ára og yngri séu æðstu stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins í dag en fyrir tíu árum síðan.
Listinn er valinn samkvæmt tilnefningum álitsgjafa úr viðskiptalífinu. Ungir stjórnendur í fyrirtækjum með alþjóðlega starfsemi, eins og Össur og Marel, eru áberandi á listanum. Enginn forstjóri fyrirtækis í Kauphöll Íslands komst á listann þar sem þeir eru allir eldri en 40 ára.
Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem fyrirtækið tekur saman slíkan lista en tilgangurinn sé að lyfta fólki sem hefur verið að standa sig vel í því vandasama hlutverki að vera stjórnandi en einnig til að gefa vísbendingu um hverjir gætu átt eftir að taka við æðstu stöðum í íslenskum fyrirtækjum á næstu árum.
Valið tengist hliðarstarfsemi Góðra samskipta sem felst í svokallaðri stjórnendaleit þar sem leitað er beint til fólks um að taka að sér stjórnunarstörf í fyrirtækjum, sem þegar er í góðu starfi og því ólíklegt til að bregðast við atvinnuauglýsingum.
Valið á 40/40 listann fór þannig fram að óskað var eftir tilnefningum frá fólki sem þekkir vel til í viðskiptalífinu og síðan voru 20 einstaklingar af hvoru kyni valdir úr þeim nöfnum sem bárust. Í tilkynningu fyrirtækisins segir enn fremur að þó endanlegt val listans byggi að miklu leyti á huglægu mati og sé aðallega til gamans gert þá hafi verið stuðst við ákveðna mælikvarða eins og árangur innan stórra fyrirtækja, umfang ábyrgðar, traust sem viðkomandi einstaklingar njóta hjá stjórn og æðstu stjórnendum og mannaforráð. Eingöngu hafi verið horft til stjórnenda íslenskra fyrirtækja, en ekki stjórnenda hjá hinu opinbera eða þeirra sem stýra eigin fyrirtækjum.