Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, segir að það hafi ítrekað gerst á síðustu árum að ráðherra sé dæmdur fyrir að brjóta lög við skipun dómara. Afleiðingar af því hafi einvörðungu verið þær að íslenska ríkið sé dæmt skaðabótaskylt. „Pólitísk ábyrgð ráðherra er engin á því.“ Þetta kom fram í viðtali við Björgu í fréttum RÚV.
Þar sagði hún enn fremur að ráðherra beri ábyrgð á öllum embættisathöfnum öllum samkvæmt 14. grein stjórnarskrárinnar og verði sóttur fyrir Landsdómi fyrir embættisbrot. „En eins og menn vita þá er það eingöngu í alvarlegustu tilvikum sem slíkt myndi gerast að embættisbrot sé svo alvarlegt.“
Björg segir að rökin með því að ráðherra hafi endanlegt skipunarvald dómara og sé því ekki endanlega bundinn af tillögum dómnefnda sem leggja til skipan dómara séu þau að ráðherrann beri ábyrgðina. „En í rauninni virðist sem í allavega framkvæmdinni birtist engin slík ábyrgð. Hann tekur í raun enga ábyrgð á því að hafa verið dæmdur brotlegur.“
Að hennar mati dregur sú þróun sem átt hefur sér stað að undanförnu gefi tilefni til að hafa áhyggjur af því að sjálfstæði dómsvalds og dómstóla sé ekki eins og það eigi að vera.
Ráðherra braut lög
19. desember 2017 komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið gegn ákvæði stjórnsýslulaga við skipan Landsréttardómara. Dómstóllinn tók afdráttarlausa efnislega afstöðu til málsins. Ef dómsmálaráðherra ætlar að víkja frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis verður slík ákvörðun að vera reist á frekari rannsókn ráðherra, líkt og kveðið er á um í stjórnsýslulögum.
Í dómi Hæstaréttar segir að það liggi ekki fyrir að Sigríður hafi ráðist í frekari rannsókn á þeim atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem málið snérist um og rökstuðningur hennar til forseta Alþingis, sem settur var fram í bréfi dagsett 28. maí 2017, um að víkja frá niðurstöðu dómnefndar fullnægði ekki lágmarkskröfum.
Sigríður hefur aftekið það með öllu að segja af sér vegna málsins og nýtur stuðnings forystumanna ríkisstjórnarinnar til þess að sitja áfram.
Tveir vilja bætur
Tveir þeirra sem dómnefnd hafði metið á meðal 15 hæfustu stefndu ríkinu í ofangreindu máli. Þeir eru Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Ástráður Haraldsson. Hinir tveir sem urðu af embætti Landsréttardómara vegna ákvörðunar Sigríðar hafa gert kröfu á ríkið um greiðslu bóta vegna þessa. Annar þeirra, Jón Höskuldsson, undirbýr nú lögsókn á hendur ríkinu til að fá slíkar greiddar. Hinn, Eiríkur Jónsson, hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann fari sömu leið. Á mbl.is í dag er haft eftir lögmanni hans, Grími Sigurðssyni, að það sé algjörlega einboðið að þeirra mati að bótaskylda sé til staðar í málinu.