Þeir sjö dómarar sem færðu sig frá Héraðsdómi Reykjavíkur yfir í Landsrétt nú um áramótin hafa á höndum sínum 220-230 mál. Dómstjóri við dómstólinn segir það bagalegt ef skipun dómaranna dregst langt fram í janúar, hvað þá lengur.
Héraðsdómstóla landsins vantar nú átta dómara eftir að hluti þeirra færðist yfir til Landsréttar sem tók formlega til starfa þann 1. janúar á þessu ári. Þá mun einn dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur láta af störfum þann 23. janúar næstkomandi vegna aldurs.
Töf hefur orðið á ráðningum nýrra dómara. Til stóð að þeir átta dómarar sem auglýst hafði verið eftir yrðu skipaðir þann 1. janúar. Ljóst var í júní á síðsta ári að töluverðan fjölda nýrra héraðsdómara þyrfti að fá til starfa, þegar ákveðið var hverjir myndu færa sig yfir í hinn nýja Landsrétt. Stöðurnar voru auglýstar í september. Í byrjun október kom í ljós að Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, er vanhæf til að fara með málið, þar sem hluti umsækjenda var meðal þeirra sem höfðu stefnt henni vegna þess að hún hafði ákveðið að ganga fram hjá þeim við skipun dómara í Landsrétt, þvert á niðurstöðu hæfisnefndar um hæfi umsækjenda um embættin. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var því settur ráðherra dómsmála í þessu einstaka máli, að fara með skipanir í embætti héraðsdómara.
Símon Sigvaldason dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur sagði í samtali við Kjarnann fyrir helgi að í þeim málum sem þeir sjö dómarar sem hafa hætt skilja eftir sig, og nýir dómarar eiga að taka við, sé í sumum tilfellum búið að ákveða aðalmeðferð í janúar. Öðrum í febrúar eða mars. Í restinni af málum þessara dómara hefur slíku verið frestað eða ekki komið að því að halda aðalmeðferð. Hann segir að ef skipun í þessi embætti kemur þá í vikunni eða stuttu eftir nýliðna helgi verði ekki of mikil röskun á störfum dómstólsins. Dragist hún eitthvað lengur muni þurfa að fresta málum sem sé alltaf slæmt. Þeir dómarar sem nú starfa við dómstólin eru með þétta dagskrá og ekki sé hægt að færa málin yfir á þá. Símon mun sjálfur hlaupa undir bagga í stuttum fyrirtökum mála nú næstu daga. Hann segir þó að hjá héraðsdómi líkt og víða annars staðar sé minna um að vera fyrstu daga ársins en aðra daga en vonast eftir því að fá nýja dómara til starfa sem allra fyrst.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar gerði stuttu fyrir jól athugasemdir á Alþingi við að héraðsdómstólar á Íslandi muni „tæmast“ um áramót og kallaði eftir svörum bæði dómsmálaráðherra sjálfs og setts ráðherra um hvort sú staða væri ásættanleg. Guðlaugur Þór settur dómsmálaráðherra svaraði henni til að dómstólar landsins myndu ekki tæmast þrátt fyrir að ekki verði búið að skipa þessa átta dómara og taldi ekki tilefni til að vera með miklar svartsýnisspár.
Ljóst er að skipun dómaranna mun tefjast enn frekar þar sem utanríkisráðherra sendi dómnefnd um hæfni dómara bréf þann 29. desember þar sem töluverðar aðfinnslur voru gerðar um niðurstöðu nefndarinnar. Nefndin skilaði niðurstöðu sinni til ráðuneytisins þann 21. desember. Taldi ráðherra rökstuðningi nefndarinnar ábótavant og því ekki forsendur til að taka afstöðu til efnislegs mats hennar og þannig leggja mat á hvort hann tekur undir það mat eða hvort tilefni sé til að gera tillögu um skipun annarra umsækjenda. Ráðherra sendi nefndinni bréf þar sem þess var farið á leit að hún útskýrði betur með hvaða hætti matið var framkvæmt og hvers vegna þessir átta umsækjendur voru metnir hæfari en aðrir umsækjendur.
Nefndin skilaði ráðherra svari við bréfinu þann 3. janúar. Þar var það meðal annars tekið fram að nefndin lúti ekki boðvaldi ráðherra og nokkrum aðfinnslum svarað. Ráðherra hefur ekki brugðist við svarbréfi nefndarinnar.
Fyrir liggur að samkvæmt nýföllnum dómi Hæstaréttar í máli umsækjenda um dómarastöður við Landsrétt að ráðherra ber, ákveði viðkomandi að fylgja ekki niðurstöðu dómnefndar, að framkvæma sjálfstæða rannsókn á hæfni þeirra umsækjenda sem ráðherra vill skipa í embætti en dómnefndin telur ekki meðal þeirra hæfustu. Slík rannsókn myndi að öllum líkindum taka einhverjar vikur, jafnvel mánuði og þannig tefja skipun dómaranna enn frekar.