Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hótaði á Twitter í gærkvöldi að skera niður fjárframlög frá Bandaríkjunum til Palestínu.
Ástæðan er ekki síst hörð viðbrögð vegna ákvörðunar hans um að færa sendiráð Bandaríkjanna til Jerúsalem og viðurkenna borgina sem höfuðborg Ísrael.
Ákvörðun Trumps vakti mikla reiði í Palestínu, eins og kunnugt er, og hefur valdið mikilli mótmælabylgju í múslímaríkjum víða um heim.
Mahmud Abbas, forseti Palestínu, neitaði að taka á móti varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, á fyrirhuguðum fundi þeirra í síðasta mánuði, og stjórnvöld í Egyptalandi hafa einnig neitað að taka formlega á móti fyrirsvarsfólki Bandaríkjastjórnar, á meðan ákvörðunin um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels stendur óhreyfð.
Heildarframlög Bandaríkjastjórnar til Palestínu námu tæplega 320 milljónum Bandaríkjadala, um 33 milljörðum króna, árið 2016. Auk þess hefur Bandaríkjastjórn lagt til svipað háa upphæð til Palestínu í gegnum starf Sameinuðu þjóðanna, en Trump hefur nú hótað að skera niður þessar fjárhæðir.
North Korean Leader Kim Jong Un just stated that the “Nuclear Button is on his desk at all times.” Will someone from his depleted and food starved regime please inform him that I too have a Nuclear Button, but it is a much bigger & more powerful one than his, and my Button works!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 3, 2018
Þar að auki, til viðbótar við hótanir gagnvart Palestínu, gerði Trump lítið úr kjarnorkuógn Norður-Kóreu og sagðist hann sjálfur ráða yfir miklu öflugri kjarnorkuvopnum heldur en Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu. Yfirlýsingar eins og þessar eru algjörlega fordæmalausar af hálfu Bandaríkjaforseta undanfarna áratugi.
Kim Jong Un sagðist í áramótaávarpi sínu búa yfir takka á borði sínu, sem gerði honum mögulegt að setja af stað kjarnorkusprengju.
Síðar í ávarpinu sagðist hann tilbúinn til viðræðna við Suður-Kóreu til að liðka fyrir betri samskiptum. Samkvæmt fréttum nú í morgunsárið hefur verið opnað fyrir samskiptarás milli landanna.
Á dögunum samþykkti öryggðisráð Sameinuðu þjóðanna að beita Norður-Kóreu þvingunaraðgerðum sem felast meðal annars í því að hindra innflutning á olíu til landsins. Þessu hefur verið mótmælt harðlega og hafa stjórnvöld í Norður-Kóreu sagt að þetta jafngildi stríðsyfirlýsingu.