Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis ehf. hefur samið við þrjá leiðandi alþjóðlega vaxtarsjóði á heilbrigðissviði, Bay City Capital, Novartis Venture Fund og Pivotal bioVenture Partners, um 2,1 milljarðs (CHF 20 milljóna) hlutafjáraukningu, samhliða því sem nýjar höfuðstöðvar fyrir félagið verða settar upp í Lausanne í Sviss.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá félaginu.
Oculis ehf. á rætur að rekja til Háskóla Íslands og Landspítala, en félagið var stofnað af Dr. Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og Dr. Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Styrkir Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs hafa skipt lykilmáli í uppbyggingu félagsins, m.a. öndvegisstyrkur Tækniþróunarsjóðs sem félaginu var veittur í ársbyrjun 2017. Þá lauk Oculis ehf. við fjármögnun í júní 2016 sem leidd var af Brunni vaxtarsjóði og Silfurbergi ehf., en þessir fjárfestar tóku einnig þátt í núverandi hlutafjáraukningu.
Starfsemi Oculis byggir á einkaleyfavarinni tækni, sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum. Sjúkdómar í afturhluta augans eru í dag meðhöndlaðir með augnástungum og tækni Oculis felur því í sér byltingu fyrir þær tugmilljónir sjúklinga sem þjást af slíkum sjúkdómum. Hlutafjáraukningunni er ætlað að fjármagna áframhaldandi klínískar rannsóknir á OC-118, því lyfi sem lengst er komið í þróun hjá félaginu, auk annarra þróunarverkefna.
Nýtt félag, Oculis SA, hefur verið stofnað um höfuðstöðvar félagsins í Sviss og mun það eignast allt hlutafé í Oculis ehf. Rannsóknar- og þróunarstarfsemi Oculis verður eftir sem áður á Íslandi og verður sú starfsemi efld, m.a. með nýrri rannsóknaraðstöðu og fjölgun starfsmanna.
Dr. Riad Sherif, sem áður gengdi stöðum yfirmanns hjá alþjóðlega augnlækningafyrirtækinu Alcon og lyfjarisanum Novartis, mun taka við starfi forstjóra Oculis SA.
Páll Ragnar Jóhannesson mun taka við starfi fjármálastjóra félagsins ásamt því að gegna stöðu framkvæmdastjóra Oculis á Íslandi.
Dr. Sabri Markabi, fyrrum yfirmaður rannsóknar- og þróunar hjá Alcon, mun taka við stöðu þróunarstjóra. Þá munu stofnendur Oculis, Dr. Einar Stefánsson og Dr. Þorsteinn Loftsson, áfram leiða rannsóknir og nýsköpun hjá Oculis SA.
Florent Gros, fulltrúi Novartis Venture Fund verður stjórnarformaður Oculis SA, en auk hans er stjórn félagsins skipuð Árna Blöndal, Stefáni Jökli Sveinssyni, Lionel Carnot, Rob Hopfner, Dr. Þorsteini Loftssyni og Dr. Riad Sherif.
Páll Ragnar segir í tilkynningu að hlutafjáraukningin sé mikill og stór áfangi fyrir félagið. „Með þessum sterku sjóðum sem koma að félaginu, reynslu þeirra og tengingum, ásamt því að fá Dr. Riad Sherif og Dr. Sabri Markabi til liðs við okkur, erum við að koma Oculis í fremstu röð augnlyfjaþróunar í heiminum.“