Fyrirtækið The Icelandic Milk and Skyr Corporation, sem var stofnað af Sigurði Kjartani Hilmarssyni árið 2006 og er að stærstum hluta í eigu Íslendinga, hefur verið selt til franska mjólkurvöruframleiðandans Lactalis. Kaupverðið er ekki gefið upp. Frá þessu er greint á vef Reuters. Sigurður mun áfram stýra fyrirtækinu sem er með höfuðstöðvar í New York í Bandaríkjunum.
Lactalis er einn stærsti mjólkurvöruframleiðandi í heimi. Velta þess er um 17 millljarðar evrur, rúmlega 2.100 milljarðar íslenskra króna.
Í desember var greint frá því í Fréttablaðinu að fyrirtækið væri langt komið í viðræðum við áhugasama fjárfesta í Bandaríkjunum um sölu á öllu fyrirtækinu fyrir tæplega 300 milljónir dala, jafnvirði um 30 milljarða íslenskra króna.
Í október var frá því greint að JP Morgan bankinn væri nú með fyrirtækið til sölu, en gert er ráð fyrir að tekjur þess á næsta ári verði meiri en 200 milljónir Bandaríkjadala, eða um 22 milljarðar króna, en vöxturinn framundan er áætlaður um 50 prósent árlega, samkvæmt umfjöllun CNBC um söluferlið.
Vörur fyrirtækisins, sem eru seldar undir vörumerkinu Siggi’s skyr, eru fáanlegar í um 25 þúsund verslunum í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Á meðal þeirra eru Whole Foods, Publix, Target, Wegmans og Starbucks.
Fréttablaðið greindi frá því í desember að The Icelandic Milk and Skyr Corporation væri í 75 prósent eigu Sigurðar, ættingja hans, vina og annarra sem þeim tengjast. Sjálfur átti Sigurður 25 prósent hlut samkvæmt umfjölluninni.